Prófdagurinn

Stækka mynd

Standandi rjúpnahundar - Veiðihundapróf

FHD – HRFÍ

Upphaflega tekið saman af Erlendi Jónssyni í júlí 1996, endurskoðað 2009Fuglahundadeild

Fuglahundadeild HRFÍ var stofnuð árið 2006 með sameiningu Veiðihundadeildar HRFÍ, Deildar enska setans og Úrvalsdeildar HRFÍ. Markmið deildarinnar er að efla starfsemi og vinnu með standandi fuglahunda, upplýsa og miðla þekkingu á veiðieiginleikum einstakra hundakynja og viðurkenndum aðferðum við þjálfun þeirra.

Til þess að ná markmiðum sínum skal FHD:
• halda fyrirlestra og námskeið með viðurkenndum leiðbeinendum
• halda veiðipróf til að meta hæfni og getu hunda með tilliti til ræktunar
• halda viðurkenndar veiðikeppnir
• fylgjast með og upplýsa um veiðihundastarfsemi í öðrum löndum FCI


Til hvers eru fuglahundapróf?
Hundasýningum, fuglahundaprófum eða læknisskoðunum á hundum í leit að arfgengum sjúkdómum, er ætlað að leggja grunn að markvissri hundarækt, með hlutlægu og ábyrgu vali á ræktunardýrum og pörun þeirra.

Hlutverk Fuglahundadeildar HRFÍ (FHD) er m.a. að halda fuglahundapróf, til að meta og staðfesta veiðigetu hunda með tilliti til ræktunar.

Markviss ræktun standandi rjúpnahunda, hefur að meginmarkmiði að tryggja hvolpakaupendum framtíðarinnar mjög góða fuglaveiðihunda, með gott skaplyndi, án arfgengra sjúkdóma eða erfðagalla og með líkamsbyggingu sem hentar vinnu þeirra og samræmist ræktunarmarkmiði fyrir hundakynið.

Fuglahundapróf fyrir standandi rjúpnahunda

Hver getur tekið þátt í veiðiprófi?
Veiðipróf fyrir standandi rjúpnahunda er opið öllum standandi fuglahundum í tegundahópi 7 sem keppa einnig innbyrðis í einum flokki á hundasýningum. Hérlendis eru gerðar sömu kröfur til meginlandshunda og enskra fuglahunda við rjúpnaleit og í sækivinnu. Þeir eru því flokkaðir saman í einn flokk standandi fuglahunda.

Lóðatíkur, hvolpafullar tíkur sem eiga 30 daga eða minna eftir í got og tíkur sem hafa gotið 75 dögum eða skemur fyrir veiðipróf mega ekki taka þátt. Sýnilega veikir hundar, árásargjarnir hundar, hundar sem fara í fé og hundar sem ekki eru með eðlilega þroskuð og rétt staðsett eistu, mega heldur ekki taka þátt í veiðiprófum.

Hundakyn sem teljast til þessa flokks eru (nöfn á hundakynjum, sem vitað um hér á landi eru feitletruð):

Bendir (Pointer) Írskur seti (Irish Red setter)
Gordon seti (Gordon setter) Enskur seti (English setter)
Þýskur snögghærður bendir
(German Shorthaired Pointer / Vorsteh) Þýskur strýhærður bendir
(German Wirehaired Pointer / Vorsteh)
Silfri (Weimaraner) Breton (Brittany)
Ungversk Vizsla (Hungarian Vizsla) Rauður og hvítur seti
(Red- and white setter)

Bendir (Pointer) Írskur seti (Irish Red setter)
Gordon seti (Gordon setter) Enskur seti (English setter)
Þýskur snögghærður bendir  Þýskur strýhærður bendir
(German Shorthaired Pointer / Vorsteh) (German Wirehaired Pointer / Vorsteh)
Silfri (Weimaraner) Breton (Brittany)
Ungversk Vizsla (Hungarian Vizsla) Rauður og hvítur seti
(Red- and white setter)


Hvað er standandi fuglahundur ?

Standandi fuglahundar eru sérstaklega ræktaðir til að leita uppi og benda á rjúpur, hrossagauka og hænsnfugla, sem eru dreifðir á víðáttumiklum veiðilendum. Nafnið, standandi fuglahundur, bera þeir vegna þess að þeir eiga að finna rjúpur á veiðislóð, taka stand og benda á þær þar sem þær leynast.

Fuglahundur fer hratt yfir og vítt út frá veiðimanninum, ber höfuð gjarnan hátt og leitar lyktar á ferð sinni þvert á vindinn sem ber með sér lykt af rjúpum. Hann á að fara skipulega yfir veiðislóðina þannig að ekkert svæði verði útundan í leitinni. Aðstæður á veiðislóð stýra leitarmunstrinu, þ.e. á opnum heiðum fer hundurinn langt út til beggja handa, meðan veiðimaðurinn gengur rólega eftir heiðinni. Í þröngum giljum, kjarrlendi og mishæðóttu landi, fer hundurinn skemmra út frá veiðimanninum og krussar þá jafnvel þéttar í óreglulegum vindsveipum þar sem rjúpnalykt berst oft um skamman veg. Hlutverk veiðimannsins er fyrst og fremst að fylgjast með hundinum og leiðbeina honum þegar þörf krefur við rjúpnaleitina. Þegar hundurinn svo finnur rjúpnalykt, þá krussar hann þétt upp í vindinn sem ber með sér lyktina, þar til hann tekur stand og bendir með nefinu beint á staðinn sem hann hefur staðsett rjúpuna. Með reynslunni lærir standandi fuglahundur hve nærri rjúpu hann má fara, þ.e. hve lyktin má vera sterk, áður en hætta er á að hún fælist upp. Þegar hundurinn stendur og bendir á rjúpu, gengur veiðimaðurinn hratt til hans og þegar hann er tilbúinn fyrir skot, lætur hann hundinn reisa fuglinn (reka hann upp) svo hann geti skotið hann á flugi.
Mikilvægasta þjálfun standandi rjúpnahunda, felst í því að tryggja að hann setjist alltaf þegar rjúpa flýgur upp. Ef hundurinn eltir rjúpur sem fljúga upp, kemur veiðimaðurinn ekki skoti á þær, án þess að stofna hundinum í hættu.


Flokkaskipting á prófum

Á veiðihundaprófum er hundum skipt í þrjá flokka eftir aldri og árangri á fyrri prófum. Enginn munur er á kröfum til veiðihunda eftir kynjum og allir hundar í sama flokki eru metnir á sama grunni. Við dóm í Unghundaflokki (UF) og Opnum flokki (OF) er dæmt samkvæmt gæðalögmáli, þ.e. hæfni hundsins er metin til einkunnar, en þó þeir hlaupi saman tveir og tveir í prófinu, þá eru þeir ekki í innbyrðis keppni. Í Keppnisflokki (KF) er dæmt samkvæmt keppnislögmálinu, þar sem hundarnir eru bornir saman með hliðsjón af getu hvors annars. Þeim er í keppnislok raðað innbyrðis eftir veiðigetu í keppninni.

Unghundaflokkur (UF). Í UF eru hundar yngri en 24 mánaða á fyrsta degi prófsins. Engin neðri aldursmörk eru fyrir þátttöku, en sjaldan er þó ástæða til að mæta til keppni með hunda undir eins árs aldri.

Opinn flokkur (OF). Í OF eru hundar, sem eru fullra 24 mánaða á fyrsta degi prófsins.

Keppnisflokkur KF, er fyrir hunda sem hafa fengið 1. einkunn í OF. Taki hundur ekki þátt í KF í tvö ár þarf hann að vinna sér inn þátttökuréttinn að nýju með 1. einkunn OF. Forsendur fyrir að keppt verði í KF eru að skráðir hundar séu 6 eða fleiri.

Einkunnagjöf

Á veiðiprófi eru veiðieiginleikar hundsins dæmdir. Til þess að fá einkunn, skal hundurinn finna rjúpu, taka stand á hana og reisa ef aðstæður gefa færi á því. Hann skal vera rólegur við uppflug og skot.

Í UF og OF eru gefnar; 1., 2. og 3. einkunn auk einkunnarinnar 0.

1. einkunn.
Til að fá 1. einkunn samkvæmt gæðareglunni, skal hundur prófaður í minnst 1 klukkustund og skal hann sýna afburða árangur, skapa veiðiaðstæður og vinna úr óaðfinnanlega úr þeim. Auk þessa, skal hann sækja útlagðan fugl strax eftir að hann hefur unnið úr veiðiaðstæðum.

Hundur sem fær 1. einkunn og skilar sérstaklega góðum árangri getur hlotið heiðurseinkunn að auki, ef mótshaldarar gera fyrirfram ráð fyrir slíku.

2. einkunn.
Hundar sem skapa veiðiaðstæður og sem dómari álítur vera mjög góða veiðihunda, en geta ekki fengið 1. einkunn vegna smávægilegra mistaka, fá 2. einkunn.

3. einkunn.
Hundar sem skapa veiðiaðstæður og sem dómari álítur vera góða veiðihunda, fá 3. einkunn.

0 einkunn.
Góðir, mjög góðir og afburða veiðihundar sem ekki ná í prófinu að skapa veiðiaðstæður, fá 0 einkunn. Sama gildir um hunda sem skemma veiðiaðstæður, þ.e. elta fugl eða fæla allar rjúpur upp sem þeir finna. Í dómsumsögn og í einkunnagjöf fyrir mismunandi veiðiþætti kemur fram mat dómar er á hundinum.

Í KF taka einungis afburða veiðihundar þátt og er gert því ráð fyrir háu gæðamati. Venjulega eru veitt verðlaun fyrir 1. - 6. sæti í hverjum keppnishópi. Hundar sem ná 1. og 2. sæti eru ávallt prófaðir móti hvor öðrum í lok keppninnar. Í keppnisflokki geta próf staðið í 1, 2 eða 3 daga. Ef skráðir hundar í KF eru 20 eða færri, skal keppni með sama prófnúmeri standa í einn dag, en í tvo eða þrjá daga ef hundarnir eru fleiri en 20.

Framkvæmd veiðiprófs

Markmiðið er að veiðipróf líkist sem mest raunverulegum rjúpnaveiðum. Hundum er sleppt út til leitar tveimur saman í senn á veiðisvæði, en aðrir hundar skulu ávallt hafðir í taumi og aðrir þátttakendur en leiðendur hundanna sem eru í prófi, skulu halda sig í hæfilegri fjarlægð frá prófstað. Dómari ákveður hversu lengi hundar skulu prófaðir í einu (slepptími), í hvaða röð og hverjir eru prófaðir saman, nema í fyrstu umferð þegar fyrirfram uppsett tilviljunarröð ræður. Dómari ákveður einnig hve oft einstakir hundar eru prófaðir og skulu leiðendur hunda fara eftir ákvörðun dómara um hvernig ganga skal um veiðislóðina.

Þegar hundur er prófaður, má hjálpa honum með bendingum, köllum og flautu, en þó ekki þannig að það trufli hinn hundinn í prófinu. Að undantekinni flautu, má sá sem leiðir hundinn í prófinu, ekki bera á sér nein þjálfunar- eða hjálpartæki. Hlutverk dómara er m.a. að meta meðfædda eiginleika hundsins til að fullleita veiðislóð, hratt og skipulega, án stöðugra skipana og stýringar frá leiðanda. Hundur sem stöðugt þarf að leiðbeina við rjúpnaleitina, sýnir ekki sjálfstæði eða meðfædda veiðihæfni og er því ekki hátt metinn í prófumsögn.

Þegar hundur finnur lykt af rjúpu þarf leiðandi hans að vera snöggur til að skynja aðstæðurnar og þegar hundurinn tekur stand skal hann hraða sér að hundinum, án þess þó að fæla rjúpur upp. Þegar hann kemur upp að hlið hundsins, áður en rjúpan flýgur má hann snerta hann, en eftir að hann hefur fengið leyfi dómara til að láta hundinn reisa fuglinn má hann hvorki snerta hundinn né fara fram fyrir hann. Leiðandinn gefur hundinum skipun um að reisa rjúpuna og þegar hún flýgur upp á hundurinn að setjast samstundis (helst án skipunar frá leiðanda ella við skipun), en leiðandinn skýtur síðan úr startbyssu (9 mm) þegar rjúpan flýgur, eins og um rjúpnaveiði væri að ræða. Leiðandinn sendir síðan hundinn til að leita eftirlegurjúpna. Þegar því er lokið, eða áður en hundurinn leitar eftirlegurjúpna, getur dómari lagt út rjúpu sem hann óskar að hundurinn sæki, ef hann telur hundinn vera hæfan til 1. einkunnar.

Í UF og OF gildir heiðursmannasamkomulag um að taki einn hundur stand, þá kallar leiðandi hins hundsins í sleppinu inn hundinn sinn, svo hann skemmi ekki veiðiaðstæður þess sem fann og tók stand á rjúpu. Ef síðari hundurinn hins vegar heiðrar stand þess sem fann rjúpur, þ.e. tekur stand á hundinn sem bendir á rjúpurnar, þá er það metið honum að verðleikum. Aldrei skal keppandi þó leiða sinn hund þangað sem annar hundur er á standi og taka þannig áhættu á að skemma veiðiaðstæður veiðifélagans í prófinu.

Prófþættir

Á veiðiprófi fyrir standandi rjúpnahunda metur dómari fjölmarga þætti í veiðivinnu hundsins. Dómari skrifar umsögn um vinnu hundsins og kynnir hana þátttakendum og áhorfendum jafnóðum, auk þess sem hann skráir alla þá þætti í veiðivinnunni sem upp koma í prófinu og gefur hundinum einkunn fyrir nokkra þættina.

Eftirfarandi er samantekt um þá þætti sem eru skráðir á veiðiprófi fyrir standandi rjúpnahunda:

SLEPPTÍMI: Tími sem hundarnir fá til veiða í skráist í mínútum. Í sérstakan reit á umsagnarblaði er færður inn tíminn í hverju sleppi og samanlagður veiðitími í lokin.

EIGIN STANDAR: Fjöldi tilfella sem hundur finnur rjúpur og stendur á þær. Standar á eftirlegurjúpur eru ekki meðtaldir, en teknir með við mat á nákvæmni í standi.

FÆLT UPP: Skráð er hve oft hundur fælir sjálfur upp rjúpur. Rjúpur sem fljúga upp þegar hundur er ekki nærri þeim, eru ekki meðtaldar. Þá er ekki meðtalið ef rjúpur fljúga upp þegar hundur er í hvarfi.

TÓMSTANDAR: Fjölda tilfella sem hundur tekur stand, án þess að rjúpa finnst.

STANDAR MAKKERS: Fjölda standa sem makker tekur.

FÆLINGAR MAKKERS: Fjöldi tilfella sem makker fælir upp rjúpur.

Veiðihæfni rjúpnahunda er metin í sjö liðum og fer einkunnagjöf (1 - 6) fram eftir að prófi lýkur. Hringur er dregin um þá einkunn, sem dómari gefur hundinum fyrir hvern veiðiþátt um sig.

VEIÐIÁHUGI: Virkni, samfeldni, einbeitni og þol skal meta í þessum lið.

HRAÐI: Mat á hraða í yfirferð hundsins í veiðilendu.

STÍLL: Yfirbragð og hreyfingar hundsins í veiðilendu eru metnar.

SJÁLFSTÆÐI: Hæfni hunds til að leita og veiða sjálfstætt, óháð makker er metin.

Fyrir fjóra framantalda þætti í veiðihæfni rjúpnahunda, er hæsta einkunn 6.

Veiðiáhugi, hraði og sjálfstæði hunds verður aldrei of mikill á veiðislóð. Þá má hundur gjarna vera mjög glæsilegur við veiðivinnu sína.

Munur er á einkunnagjöf fyrir fjóra framantalda þætti í veiðihæfni og þá þrjá sem á eftir fylgja, þar sem einkunnin 4 er sú eftirsóknarverðasta.

Hundur sem fer alltof langt út frá leiðanda, með miklu bili milli slaga í leitarmunstri sínu og heldur engu sambandi við leiðanda sinn, er í eigin veiðiferð en ekki að veiða með leiðanda sínum.

LEITARBREIDD: Hæfni og vilji hundsins til að fara langt til beggja handa út frá leiðanda. Einkunn 6 er gefin þegar hundur fer alltof langt út, en einkunn 4 ef hann fer svo langt út sem aðstæður krefja.

LEITARMUNSTUR: Hæfni til að fullleita veiðilendu m.t.t. landslags og vinds. Hér telur fyrst og fremst hve langt er milli slaga í yfirferð hans um veiðilendu, m.t.t. landslags og vinds. Þegar of mikið bil er milli slaga og hundur skilur eftir töluverð óleituð svæði, er gefin einkunn 6. Einkunn 4 er gefin þegar bili milli slaga hæfir landslagi og öðrum aðstæðum og hundur fullleitar veiðisvæði.

SAMVINNA: Hæfni hundsins til að veiða og leita í samvinnu við leiðanda sinn. Einkunnin 6 er gefin þegar hundur heldur engu sambandi við leiðanda. Einkunnin 4 er gefin þegar samvinna er afbragðs góð, þ.e. hundur vinnur á fullum krafti m.t.t. göngu leiðanda og hegðunar, án þess að samvinnan hamli veiðinni eða stjórni henni alfarið.

NÁKVÆMNI Í STANDI: Metið er hve nákvæmt hundur bendir á rjúpu, þ.e. stefna hundsins á rjúpuna og fjarlægð. Metið er hvort standur er ónákvæmur, nokkuð nákvæmur eða hárnákvæmur og er þá miðað við möguleika leiðanda á að fella með haglaskoti þá rjúpu sem hundurinn stendur á. Standar á eftirlegurjúpur eru skráðir hér og þannig metnir að verðleikum.

REISIR RJÚPU (REKIN UPP RJÚPA): Alltaf þegar hundur reisir (rekur upp) rjúpu úr eigin standi er skráð hve viljugur hann er til þess. Vilja hans skal meta í fjóra mismunandi flokka ; neitar að reka upp, tregur til að reka upp, viljugur, eða rekur djarflega upp. Ef hundur tekur stand en rjúpa er ekki framundan, eru viðbrögð hans við skipun um að reka upp ekki skráð, nema ef hann neitar að reka upp.

Hundur rekur djarflega upp þegar hann stekkur fram af hraða og þori.

HEIÐRUN STANDS: Skráð er þegar hundur tekur sjálfviljugur stand við að sjá makker sinn í standi, en einnig er skráð ef hundur fer framhjá makker, stelur standi eða heiðar hann ekki.

SÓTT BRÁÐ: Skráður er fjöldi tilfella sem hundur sækir bráð og þegar hann gerir það ekki. Í veiðihundaprófi getur leiðandi lagt fram sækivottorð frá löggiltu prófi. Sækivottorð eru gild í 1 ár.

HUNDUR TILKYNNIR UM RJÚPU: Skrá skal fjölda tilfella sem hundur losar upp stand, kemur og sækir leiðanda sinn, tilkynnir um rjúpu með því að leiða hann þangað sem hann áður stóð og benti á rjúpuna. Skráð er þegar hundur sem kallaður er úr standi gerir slíkt hið sama.

HÆFNISEINKUNN: Í UF og OF eru gefnar einkunnirnar 1., 2. og 3. auk einkunnarinnar 0. Í KF er hundum raðað í 1. - 6. sæti eftir innbyrðis getu á prófdegi.

Skráning í veiðipróf

Skráning í veiðipróf fer fram á eyðublöðum sem fást á skrifstofu hjá HRFÍ eða á heimasíðu Fuglahundadeildar www.fuglahundadeild.is. Við skráningu skal merkja í hvaða prófflokki viðkomandi hundur tekur þátt og skrá prófnúmer og dagsetningar. Þátttökutilkynningum skal skila innan tilskilins frests sem yfirleitt er vika til tíu dagar og greiða þátttökugjald um leið. Hundur sem tekur þátt í veiðiprófum á vegum HRFÍ skal vera bólusettur gegn þeim smitsjúkdómum sem leyfilegt er að bólusetja gegn hér á landi og varanlega auðkenndur með örmerki eða húðflúri.

Þátttökugjald, að frádregnum 20% skipulagskostnaði, fæst aðeins endurgreitt ef þátttökutilkynning er ekki viðurkennd eða ef sjúkdómstilfelli eða lóðarí kemur sannanlega upp a.m.k. 12 tímum fyrir próf. Með sjúkdómstilfelli er ekki átt við of þreytta eða sárfætta hunda.

Prófdagurinn

Mætið á réttum tíma, því próf hefst stundvíslega og að loknu nafnakalli og kynningu prófsins, er lagt af stað á veiðislóð. Upplýsingar um skiptingu hunda í hópa og röð í slepp eru gefnar við upphaf veiðiprófs.

Góð ráð á prófdag

Veiðipróf standa oft í langan tíma og farið er um langan veg á veiðislóð. Hafið því meðferðis hlý föt, nesti og drykk fyrir ykkur og hundinn. Í hlýviðri og sólskini tapa hundarnir miklum líkamsvökva þegar þeir hlaupa af miklum krafti við veiðarnar. Hafið því alltaf meðferðis vatn fyrir hundinn og fyllið á vatnsílátin þegar tækifæri gefast því hundarnir eru í fyrirrúmi á prófdegi og endranær við rjúpnaveiðar.

Það er alltaf lærdómsríkt að fylgjast með veiðihundum í prófi og sjálfsagt að reyna að læra af því sem fram fer í prófinu, áður röðin kemur að manni sjálfum að leiða hundinn fram í prófinu. Notið hálsól á hundinn sem auðvelt er að losa af fyrir prófið, því hundar mega ekki bera hálsól í þegar þeir hlaupa í sleppum.

Að loknu hverju sleppi gefur dómarinn munnlega umsögn um vinnu þeirra fyrir áhorfendur, svo að þeir fái innsýn í mat dómarans á hundunum. Þegar líður á prófið er það hinsvegar oft þannig að dómari leitar einungis staðfestingar einstaka þáttum í hæfni hundanna við veiðiaðstæður. Dómari þarf að meta hundana á standi, við reisingu á rjúpu, uppflug og skot, auk þess sem hann metur úthald og þrek þeirra, enda skulu hundar prófaðir a.m.k. í eina klukkustund ef þeir annars eru hæfir til 1. einkunnar. Umsögn um hunda milli sleppa verða því stuttar er á líður prófið, enda ekki ástæða til að fjölyrða um það sem áður er getið. Leiðendur hunda eiga að fylgjast með framgangi prófsins og vera tilbúnir með sína hunda í slepp áður en því næsta á undan lýkur.

Gagnrýnið ekki umsögn dómara, hún er endanleg og áhorfendum yfirsést auðveldlega ýmis atriði í veiðivinnu hundsins sem hafa afgerandi þýðingu við mat á hæfni hans. Hafið það gjarnan að leiðarljósi að við viljum hafa það huggulegt á veiðiprófum. Verið kurteis í framkomu og snyrtilega klædd í prófinu. Veiðiprófi lýkur með samkomu þar sem fram fer einkunnagjöf og það er ánægjulegast ef allir þátttakendur og áhorfendur safnast saman í próflok.

Þjálfun

Standandi rjúpnahundar eiga að hafa í sér eiginleika til fara hratt og vítt um við skipulega leit, finna bráð og taka stand á hana í skotfæri. Þjálfa þarf hundana í að halda standi, reisa rjúpur við skipun og setjast þegar þær fljúga. Á veiðiæfingum eykur eigandinn áhuga hans á rjúpnaveiðum, mótar leitarmunstur hans og breidd leitarsvæðisins. Auðvitað á veiðimaðurinn svo að kenna hundunum að sækja fellda bráð. Þá er afar mikilvægt er að byggja upp sem best samband milli manns og hunds á öllum stigum þjálfunar og æfinga.

Veiðihæfni er arfgeng

Veiðihæfni hunda er að miklu leiti arfgeng, enda miðar hreinræktun veiðihundakynja að því að tryggja og auka þá hæfni. Líkamsbygging, lundarfar og útlit veiðihunda endurspeglar aðlögun þeirra að þeim kröfum sem veiðimenn gera til hundanna, svo þeir skili mestum árangri við tilteknar veiðar.

Í mörgum veiðihundakynjum, er eðlislægt lundafar svo gott að þeir henta mjög vel sem fjölskylduhundar. Þetta hefur á stundum valdið því, að upprunalegt markmið með ræktun veiðihundakynsins hefur gleymst og fram kemur mikill munur í útliti og eiginleikum veiðihunda annars vegar og fjölskyldu- eða sýningarhunda hinsvegar, sem allir eru þó af sama hundakyni. Þjálfun og æfing veiðihunda er svo krefjandi og tímafrekt verkefni, að ekki er ástæða til að leggja af stað í þá vinnu með hvolpa nema þeir hafi eðlislæga veiðihæfni.

Besti mælikvarði á veiðigetu hunds er árangur hans við veiðar, en þar eru jafnan fáir til frásagnar. Til að meta og bera saman hæfni veiðihunda standa hundaræktarfélög því fyrir veiðihundaprófum, þar sem hundarnir eru prófaðir við aðstæður sem eru nær alveg þær sömu og á veiðislóð. Dómarar meta þá árangur hundanna, gefa þeim einkunn fyrir frammistöðu eða raða þeim í röð eftir árangri og hæfni. Þannig er árangur á veiðihundaprófum, t.d. þeim sem FHD-HRFÍ hefur staðið fyrir á undanförnum misserum, metinn og skráður af dómurum svo hundaræktendur og tilvonandi hvolpakaupendur geti gengið úr skugga um hvað óvilhöllum dómurum finnst um veiðihæfni tiltekinna hunda. Þannig geta hvolpakaupendur sem vilja eignast veiðihund, óskað eftir því að fá niðurstöður úr veiðihundaprófum sem foreldrin taka þátt í, áður en þeir kaupa hvolp undan hundum sem eigendurnir telja auðvitað bestu veiðihunda í heimi.