Fuglahundadeild mynd 4
Leita á vefsíðu

Póstlisti
Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 5276234

Veiðiprófsreglur


Deila


Veiðiprófsreglur tegundahópur 7

Tvenskonar próf eru í boði fyrir hunda sem tilheyra tegundarhópi 7.

Próf sem byggt er á sænskum reglum um ræktunarpróf fyrir meginlandshunda sjá meðfylgjandi link:


reglur_um_próf_fyrir_meginlandshunda_240619.pdf


 

Próf sem byggt er á norskum reglum fyrir standandi fuglahunda og er opið öllum tegundum í TH7. Sjá reglur hér að neðan:
Veiðiprófsreglur tegundahópur 7

Mars 1996, með breytingum í júlí 2001, október 2007, desember 2008 og  júlí 2013.   Tekur gildi 1. janúar 2014.

1.         Markmið.

2.         Skipulag.

2.1.      Almennt.

2.2.      Umsóknir

2.3.      Prófgögn og staðfestingar.

2.4.      Prófstjórn.

2.5.      Prófi aflýst.

2.6.      Viðurkenning á umsögnum og árangri.

3.         Þátttaka.

3.1.      Hundar.

3.2.      Leiðandi hunds.

3.3.      Þátttökutilkynning.

3.4.      Þátttökugjald.

3.5.      Frávísun frá prófi.

3.6.      Lyfjanotkun.

3.7.      Ábyrgð.

3.8.      Framkoma á prófstað, kvartanir og viðurlög.

3.8.1.   Almennt.

3.8.2.   Klögumál.

4.         Dómarar.

4.1.      Prófhaldari tilnefnir dómara strax og próf hefur verið ákveðið og dagsett.

4.2.      Skyldur dómara.

5.         Framkvæmd prófsins.

5.1.      Ráðstöfun prófsvæða, rásröð og viðfangsefni dómara.

5.2.      Framkvæmd prófs.

5.3.      Stjórnun á hundi.

5.4.      Skotið að eða á bráð.

6.         Flokkaskipting.

6.1.      Hæfileikadómur, keppnisdómur.

6.2.      Unghundaflokkur, UF.

6.3.      Opinn flokkur, OF.

6.4.      Keppnisflokkur, KF.

6.5.      Fjöldi hunda.

7.         Umsagnir og dómar.

7.1.      Vettvangsvinna.

7.2.      Fuglavinna.

7.3.      Unghundaflokkur, UF.

7.4.      Opinn flokkur, OF.

7.5.      Keppnisflokkur, KF.

8.         Einkunnagjöf.

8.1.      Aðalreglur.

8.2.      Einkunnastig.

9.         Sérreglur um sæki og alhliða veiðipróf fyrir standandi fuglahunda.

9.1       Almennt.

9.2.      Einkunnagjöf.

9.3.      Punktagjöf.

9.4       Skráning árangurs.

9.5       Útfærslur á einstökum prófliðum.

10.       Íslenskur Veiðimeistari ISFtCh.

11.       Íslenskur alhliða Veiðimeistari IS(k)FtCh

12.       Breytingar á veiðiprófsreglum fyrir tegundahóp 7

 

Reglur um veiðipróf fyrir standandi fuglahunda í tegundahópi 7.

 

1. Markmið

 

Aðalmarkmið með veiðiprófi fyrir standandi fuglahunda er:

- að kanna og skrá hæfileika hundsins til veiða.

- að auðvelda ræktunarvinnu.

- að efla veiðimenningu og virðingu fyrir fuglaveiðum.

- að efla og bæta þjálfun veiðihunda. 

Prófin skulu vera sem líkust raunverulegum veiðum þar sem sportlegar hefðir eru í fyrirrúmi.

 

2. Skipulag

 

2.1. Almennt

Ræktunardeildir í tegundahópi 7 og svæðisfélög geta, með samþykki stjórnar HRFÍ skipulagt og staðið fyrir veiðiprófum. Skráning á þátttöku í veiðiprófum fer fram á skrifstofu HRFÍ.

 

2.2. Umsóknir

Umsóknir ræktunardeilda um að halda veiðipróf skal senda til veiðiprófanefndar HRFÍ fyrir 15. október ár hvert.

 

Umsókn um hvert veiðipróf þurfa að fylgja upplýsingar um stund og áætlaðan stað fyrir prófið, hvers eðlis prófið er, skráningarfrest, upplýsingar um dómara, íslenskur/erlendur og prófstjóra. Fjárhagsáætlun þarf jafnframt að fylgja með umsókn. Einnig skal fylgja skriflegt leyfi landeiganda til prófahalds, þegar það á við.

 

Veiðiprófanefnd HRFÍ fer yfir umsóknir um veiðipróf og sendir til stjórnar HRFÍ til samþykktar, fyrir 31. október vegna veiðiprófa næsta árs. Dagskrá veiðiprófa skal birta á heimasíðum ræktunardeilda.

 

2.3. Prófgögn og staðfestingar

Stjórn HRFÍ skal staðfesta boð erlendra dómara á veiðipróf.

Prófhaldari skal senda HRFÍ innan fjögurra vikna eftir próf:

a) Skýrslu frá fulltrúa HRFÍ.

b) Upplýsingar um dómaraefni.

c) Úrslit í tveimur eintökum.

d) Frumrit af umsögnum.

e) Yfirlit yfir úrslit.

Prófhaldari skal senda ræktunardeildum afrit af umsögnum prófdómara fyrir viðkomandi hundakyn innan fjögurra vikna eftir próf.

Prófgögn skulu vera aðgengileg starfsmönnum á skrifstofu HRFÍ.

 

2.4. Prófstjórn

Prófhaldari skal útnefna prófstjóra, sem ræður tæknilegri útfærslu prófsins. Fulltrúi HRFÍ er hæstráðandi varðandi túlkun á reglunum, hann skal vera dómaramenntaður. Þessir tveir geta ekki verið sami aðilinn. Fulltrúi HRFÍ skal vera viðstaddur prófið alla prófdagana og

getur hann starfað sem dómari.  Hann metur vald sitt og skyldur hverju sinni sjálfur.

Vandamál eða vafatilfelli sem upp koma, eru leyst af fulltrúa HRFÍ, prófstjóra og dómurum eftir því sem við á.

 

Prófstjóri og fulltrúi HRFÍ geta hvor á sínu sviði, hvenær sem er, haft afskipti af prófinu ef þeir telja það nauðsynlegt. Þó geta þeir ekki haft áhrif á umsagnir eða vinnutilhögun dómara.

 

Prófstjóri og fulltrúi HRFÍ geta sjálfir tekið þátt í prófinu.

 

Starfsmenn prófsins skulu starfa samkvæmt fyrirmælum prófstjóra og dómara og þannig að dagskrá raskist ekki.

 

Þátttakendur skulu fara að einu og öllu eftir óskum dómara og prófstjóra. Óski þátttakandi að hætta þátttöku og yfirgefa prófstað, þarf leyfi dómara.

Fulltrúi HRFÍ skal strax að prófi loknu yfirfara og stemma af umsagnir dómara og úrslit og gæta að því að dómari hafi staðfest umsagnirnar með undirskrift sinni og dómaranúmeri.Prófstjóri skal skila til skrifstofu HRFÍ afritum af umsögnum dómara innan 10 daga frá síðasta prófdegi.

 

2.5. Prófi aflýst

Prófstjóri, í samráði við dómara og fulltrúa HRFÍ, getur aflýst, frestað eða stöðvað próf, ef hann telur óforsvaranlegt að halda það eða halda því áfram. Í slíkum tilfellum skal endurgreiða þeim þátttakendum sem ekki hafa þegar fengið einkunn 80% af þátttökugjaldi, eða gefa þeim kost á að skrá þátttökuhund í annað próf, sér að kostnaðarlausu.

 

Þegar prófi er aflýst eða frestað, skal prófstjóri tilkynna það Veiðiprófanefnd HRFÍ og stjórn HRFÍ skriflega.

 

2.6. Viðurkenning á umsögnum og árangri

Stjórn HRFÍ metur hvort próf er löglegt eða ekki. Ef próf er löglegt, skal skrá niðurstöður í gagnaskrá HRFÍ.

 

3. Þátttaka

 

3.1. Hundar

Félagsmönnum HRFÍ og félagsmönnum í félögum viðurkenndum af HRFÍ er einum heimilt að skrá til þátttöku hunda sína á veiðipróf Hundaræktarfélags Íslands.

Við skráningu á veiðipróf skal nota skráningarkerfi félagsins.

Aðeins má prófa hunda sem skráðir eru í ættbók HRFÍ og tilheyra grúbbu 7. Innflutta hunda má þó sýna án umskráningar, sé eigandi búsettur erlendis. Innflutningsleyfi og vottorð frá einangrunarstöð verða að fylgja með skráningarblaði og þurfa hundarnir að vera ættbókarfærðir hjá erlendu hundaræktarfélagi, viðurkenndu af HRFÍ.

 

Lóðatíkur, hvolpafullar tíkur sem eiga 30 daga eða minna eftir í got og tíkur sem hafa gotið fyrir 75 dögum eða skemur mega ekki taka þátt í veiðiprófum. Sýnilega veikir hundar, árásargjarnir hundar, hundar sem fara í fé og hundar sem ekki eru með eðlilega þroskuð og rétt staðsett eistu, mega ekki taka þátt í veiðiprófum og ber dómara að vísa þeim úr prófi.

 

Prófhaldari og starfsmenn bera enga ábyrgð á tjóni eða óhöppum sem þátttakendur eða hundar verða fyrir í prófi. Prófhaldari og starfsmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem þátttakendur og hundar þeirra kunna að valda þriðja aðila. Að öðru leyti gilda sömu skilyrði fyrir þátttöku á veiðiprófum og gilda um þátttöku í ræktunarsýningum HRFÍ.

 

Þegar karlhundur tekur þátt í opnum flokki á prófi fyrir veiðihunda í fyrsta sinn skal eigandi framvísa vottorði dýralæknis um að hundurinn sé með eðlilega þroskuð og rétt staðsett eistu. Vottorðið skal færa í skrá HRFÍ um viðkomandi hund og það skráð á þátttökutilkynningar á skrifstofu HRFÍ sem prófstjóri fær afhent við undirbúning prófsins.

 

Hundur í eigu einstaklings sem útilokaður hefur verið frá starfi HRFÍ vísað hefur verið úr HRFÍ eða hefur verið sviptur rétti til að sýna hund eða taka þátt í veiðiprófum, má ekki taka þátt í veiðiprófum.

 

3.2. Leiðandi hunds

Öllum félagsmönnum HRFÍ og félagsmönnum hundaræktarfélaga sem HRFÍ viðurkennir, er heimil þátttaka í veiðiprófum.

 

Einstaklingur sem vísað hefur verið úr HRFÍ, eða verið sviptur rétti til að sýna hund eða taka þátt í veiðiprófum, má hvorki leiða hund í annarra eigu í veiðiprófi, né vera viðriðinn veiðipróf. Hver þátttakandi má ekki byrja með fleiri en 5 hunda í sama prófi. Prófstjóri getur takmarkað það enn frekar. Þátttakandi sem er með 3 hunda eða fleiri, skal hafa aðstoðarmann sem annast hundana á meðan ekki er verið að prófa þá. Aðstoðarmaðurinn má ekki taka sjálfur þátt í prófinu.

 

Þátttakandi með 2 hunda skal hafa samið fyrirfram við annan þátttakanda/aðstoðarmann í prófinu um að halda í hund sinn þegar hann er með hinn í sleppi.

 

Leiðandi hunds má ekki hafa annan hund með sér í taumi þegar hann leiðir hund í sleppi.

 

3.3. Þátttökutilkynning

Allar þátttökutilkynningar eru bindandi og skráðar á sérstakt eyðiblað.

 

Þátttökueyðublað, ásamt fylgibréfum, skal afhent prófstjóra strax að skráningarfresti loknum. Prófstjóri hefur rétt til að hafna þátttökutilkynningum, sem ekki eru á réttu eyðublaði, eða ef nauðsynlegar upplýsingar vantar.

 

3.4. Þátttökugjald

Þátttökugjald greiðist við skráningu.

 

Þátttökugjald, að frádregnum 20% skipulagskostnaði, er aðeins greitt til baka ef:

 

a) Þátttökutilkynning er ekki viðurkennd.

 

b) Sjúkdómstilfelli eða lóðarí kemur sannanlega upp a.m.k. 12 tímum fyrir próf. Sjúkdómstilfelli eða lóðarí skal tilkynnt prófstjóra fyrir setningu prófs og staðfest af dómara/dýralækni og sent prófstjóra eigi síðar en 7 dögum eftir upphaf prófsins. Með sjúkdómstilfelli er ekki átt við ofþreytta eða sárfætta hunda.

 

Ef þátttakandi mætir ekki við nafnakall prófs, fæst þátttökugjald ekki endurgreitt nema skv. lið a og b.

 

3.5. Frávísun frá prófi

Hundum sem ekki uppfylla skilyrði um þátttöku sbr. grein 3.1. eða sem rangar upplýsingar hafa verið gefnar um við skráningu, má vísa úr prófi og endurgreiðist þátttökugjald ekki í slíkum tilfellum. Vísvitandi röng upplýsingagjöf getur varðað viðurlögum siðanefndar HRFÍ.

 

 

3.6. Lyfjanotkun

Bannað er að gefa hundi lyf sem örva, róa, deyfa verki, hafa áhrif á eðlisfar eða lunderni eða á einhvern hátt getur haft áhrif á árangur eða getu.

 

 

3.7. Ábyrgð

Eigandi og sá sem skráður er leiðandi hunds í þátttökutilkynningu, er ábyrgur ef hundur veldur skaða á prófstað. Allir hundar skulu hafðir í taumi á meðan þeir eru ekki sjálfir í sleppi.

 

3.8. Framkoma á prófstað, kvartanir og viðurlög

 

3.8.1 Almennt

Þátttakendur í prófi og áhorfendur skulu sýna prúðmennsku og góða umgengni á prófstað, fara að settum reglum og fylgja fyrirmælum dómara og prófstjóra meðan á prófi stendur. Harðhent refsing eða ögun hunda er óheimil í veiðiprófi. Þátttakendum er óheimilt að veitast að dómara fyrir störf hans, sem og öðrum trúnaðarmönnum prófsins og þátttakendum. Brot á reglum eða vanvirðing gagnvart dómara og/eða starfsmönnum prófsins geta varðað áminningu, brottvísun úr prófi og frá prófstað. Í alvarlegri tilfellum geta brot varðað tímabundinni útilokun frá starfi HRFÍ.

 

Varðandi framkomu á prófstað og agabrot er fulltrúi HRFÍ æðstráðandi í túlkun prófreglna. Dómari fer þó með æðsta vald varðandi vinnutilhögun og mat á hundum í sínum hópi. Hann skal ráðfæra sig við fulltrúa HRFÍ varðandi áminningar þátttakenda eða brottvísun þeirra frá prófstað.

 

Aga- og umgengnisbrot skal tilkynna dómara. Alvarlegri tilfelli skal tilkynna prófstjóra og fulltrúa HRFÍ skriflega áður en prófi lýkur. Þátttakandi sem vísað er úr prófi fær ekki endurgreitt þátttökugjald.

 

3.8.2 Klögumál

Ekki er hægt að áfrýja mati dómara á árangri hunda í vinnu og ákvörðunum þar um, sem reglur kveða á um að hann skuli meta. Ákvörðun dómara verður hvorki felld niður, breytt eða hún ógilt, hafi veiðiprófsreglur HRFÍ verið virtar.

Þátttakandi sem telur að veiðiprófsreglur hafi verið brotnar við dóm á hundi hans, hefur fyrir lok prófsins rétt til að leggja fram skriflega kæru til fulltrúa HRFÍ, sem fjallar um kæruna á staðnum og sker úr. Úrskurði fulltrúa HRFÍ má áfrýja skriflega til veiðiprófanefndar HRFÍ innan sjö daga. Áfrýjunargjald nemur tvöföldu þátttökugjaldi í veiðiprófi. Veiðiprófanefnd HRFÍ skal fjalla um kæruna og svara ákæranda eigi síðar en 6 vikum frá dagsetningu kærunnar. Afrit af kæru og svari skal sent stjórn HRFÍ og siðanefnd HRFÍ, til kynningar. Uni málsaðilar ekki niðurstöðu veiðiprófanefndar HRFÍ má vísa málinu til siðanefndar HRFÍ. Ef upp kemur mjög alvarlegur ágreiningur eða agavandamál, getur veiðiprófanefnd HRFÍ vísað málinu til siðanefndar HRFÍ.

 

Áfrýjunargjald fæst endurgreitt, ef kæra er talin réttmæt og dómur í prófinu er ógiltur.

Þátttakandinn fær þá rétt til þátttöku í veiðiprófi á vegum HRFÍ sér að kostnaðarlausu, innan eins árs frá úrskurði veiðiprófanefndar HRFÍ.

 

4. Dómarar

 

4.1. Prófhaldari tilnefnir dómara strax og próf hefur verið ákveðið og dagsett.

Prófhaldari ákveður hvort dómarar verða einn eða tveir í hverjum hópi. Í neyðartilvikum getur fulltrúi stjórnar HRFÍ á prófstað kallað til dómara.

 

4.2. Skyldur dómara

Dómarinn skal:

a) Útskýra fyrir þátttakendum áður en próf hefst, hvernig það gengur fyrir sig, fara yfir

öryggisreglur varðandi notkun skotvopna ef það á við og brýna fyrir þátttakendum ábyrgð þeirra.

b) Dæma og skrá umsögn, þar sem fram kemur nákvæm niðurstaða um hvern einstakan hund.

c) Útskýra eftir hvert slepp fyrir viðkomandi þátttakanda umsögnina og framgang prófsins.

d) Afhenda þátttakendum afrit af umsögn áður en prófi lýkur.

e) Afhenda prófstjóra undirritaða umsögn eftir að prófi lýkur.

f) Dómari skrái dómaranúmer sitt á umsagnarblaðið.

 

5. Framkvæmd prófsins

 

5.1. Ráðstöfun prófsvæða, rásröð og viðfangsefni dómara

Prófstjóri dregur um rásröð ef hópar eru fleiri en einn, nema í KF, þar sem hlutkesti ræður rásröð.

Prófstjóri úthlutar dómurum svæðum fyrir mismunandi flokka og hópa.

Þátttakandi með fleiri hunda í sama flokki fær rásröð í sama hópi. Ef rásröð veldur keppanda/þátttakanda erfiðleikum, getur dómari breytt henni. Upplýsingar um dómara, rásnúmer, prófstað og mætingartíma, skal tilkynna þátttakendum eigi síðar en 3 dögum fyrir upphaf veiðiprófs.

 

5.2. Framkvæmd prófs

Hundana skal prófa tvo og tvo saman í almennum veiðiprófum, en einn í einu í sækiprófum. Dómari ákveður í hversu langan tíma hver hundur er prófaður, í hvaða röð og hverjir raðast saman, nema í fyrstu umferð KF.

 

Í blönduðum hóp skulu hundar í UF og OF aldrei hlaupa saman.

 

5.3. Stjórnun á hundi

Þegar hundur er prófaður, má hjálpa honum með bendingum, köllum og flautu, en þó aðeins á þann hátt, að hundurinn sem hleypur með honum verði ekki fyrir truflun.

 

Að undantekinni flautu, má leiðandi ekki bera á sér nein þjálfunar- eða hjálpartæki. Í vafatilfellum hefur dómari úrslitavald.

 

Hundar skulu ávallt hafðir í taumi þegar ekki er verið að prófa þá og þátttakendur sem bíða, skulu halda sig í hæfilegri fjarlægð frá hundum sem verið er að prófa.

 

Eftir að próf er hafið á hundi, má hann ekki fá nýjan leiðanda nema með leyfi dómara. Leiðandi hunds má ekki hætta þátttöku nema með leyfi dómara. Þó má skipta um leiðanda hunds, ef prófið stendur yfir í fleiri en einn dag. Hundar með sama leiðanda mega ekki dæmast saman í sleppi, nema dómari telji það nauðsynlegt vegna framgangs prófsins.

 

Í veiðiprófi má ekki snerta hund eða beita þvingandi aðferðum til að fá hann fram, eftir að honum hefur verið skipað að reisa fugl.

 

Gaddakeðjur eða klípiólar eru bannaðar í veiðiprófum HRFÍ.

 

  

5.4. Skotið að eða á bráð

Nota skal haglabyssu með eðlilegri hlauplengd, 9 mm startbyssu eða aðra byssu, eftir ákvörðun prófstjóra. Eingöngu má nota föst skot í keppnisflokki þar sem veiða á fugl, í öðrum tilfellum skal nota skot án hagla eða kúlu (laus skot).

 

Þegar laus skot eru notuð, skýtur leiðandi hundsins sjálfur yfir hann.

Þegar föst skot eru notuð skal útnefna sérstaka skyttu og skal eingöngu notast við tvíhleypu. Skal byssan vera opin og óhlaðin þar til dómari gefur leyfi til að hlaða. Strax að loknum dómi á hundi, skal skyttan sýna dómara að byssan sé óhlaðin og afhenda dómara ónotuð skot.

 

Allra leiða skal leita til að forðast óhöpp með skotvopn.

 

6. Flokkaskipting

 

6.1. Hæfileikadómur, keppnisdómur

Við dóm í UF og OF er dæmt samkvæmt hæfileikum einstaklingsins sbr. 7. gr., en í KF eru hundarnir bornir saman með hliðsjón af getu og hæfileikum hvers annars sbr. 7. gr.

 

6.2. Unghundaflokkur (UF)

Í UF eru prófaðir hundar sem eru fullra 9 mánaða daginn fyrir fyrsta dag veiðiprófs og yngri en 24 mánaða, daginn fyrir fyrsta dag veiðiprófs.

 

6.3. Opinn flokkur (OF)

Í OF eru hundar sem eru 24 mánaða daginn fyrir fyrsta dag veiðiprófs.

 

6.4. Keppnisflokkur (KF)

KF er fyrir hunda sem hafa fengið 1. einkunn í OF. Taki hundur ekki þátt í KF í tvö ár þarf hann að vinna sér inn þátttökuréttinn að nýju með 1. einkunn OF.

 

Forsendur fyrir að keppt verði í KF eru að 6 hundar eða fleiri taki þátt.

Ef skráðir hundar í KF eru 20 eða færri, skal keppnin standa í einn dag.

 

Ef skráðir hundar eru fleiri en 20, skal keppnin standa í tvo eða þrjá daga, þannig að bestu hundar prófsins úr hverjum prófhópi séu alltaf prófaðir saman áður en prófinu lýkur.

Eins dags keppnir og fyrsti dagur í keppnum sem standa í fleiri daga, kallast "KF".

Annar dagur í tveggja daga keppni kallast "KF úrslit".

 

Dagar í þriggja daga keppnum nefnast eftirfarandi:

 

1. dagur = "KF" .

2. dagur = "KF-undanúrslit".

3. dagur = "KF-úrslit".

 

Stjórn HRFÍ getur sett nánari reglur um þátttöku í Íslandsmeistaramóti eða í öðrum stórum keppnum.

 

6.5. Fjöldi hunda

Fjöldi skráðra hunda í hverjum prófhóp í UF og OF má ekki vera yfir 14 og ekki færri en 4.

 

Í hverjum hópi í KF mega vera 20 hundar.  Ef skráðir hundar í KF eru fleiri en 20 skal keppt í 2 hópum eða fleiri.

 

Ef aðstæður eru fyrirsjáanlega erfiðar, má takmarka fjölda hunda í hverjum hóp, frekar en að framan greinir.

 

7. Umsagnir og dómar

 

7.1. Vettvangsvinna

Í vettvangsvinnu skal leggja sérstaka áherslu á veiðiáhuga hundsins, hæfileika hans til að finna og halda fugli, hvernig hann leitar ásamt hraða og stíl. Meta skal hvernig hundurinn reisir fugl, hagar sér við uppflug, skot, eftirleitar, hvernig hann heiðrar stand og sækir útlagaða bráð. Einnig skal meta almenna hlýðni og úthald.

 

Heildaryfirbragð skal vera ákvarðandi fyrir árangurinn. Einstaka tilfallandi mistök eiga ekki að vega of þungt í dómnum.

 

7.2. Fuglavinna

Hundar fá 1. 2. eða 3. einkunn eingöngu ef þeir hafa sjálfstætt tekið stand á rjúpu. Hundurinn skal staðsetja fuglinn, taka stand og halda standi þar til leiðandi fær leyfi dómara til að láta hundinn reisa fuglinn. Leiðandi hunds getur tilkynnt stand.

 

Dómari metur hvenær hundur er á standi. Standurinn skal vera sjálfstæður, hundinn má t.d. ekki flauta á stand.

 

Hundurinn skal reisa fuglinn af sjálfsöryggi, nákvæmni og ákveðni. Í prófum er vinna hundsins eingöngu metin við veiðar á rjúpu.

 

Í prófum má eingöngu skjóta rjúpu og ákveður dómari hvort svo skuli gert. Í prófum þar sem notaðar eru startbyssur skýtur leiðandi hundsins.

 

Hundurinn skal vera rólegur við uppflug og skot og sýna eftirleit. Þjófstart í að sækja er alvarlegur galli í fuglavinnu og er metinn sem slíkur af dómara.

Þegar hundur hefur tekið stand, ákveður dómari hvort makker skuli tekinn í taum. Drengskap skal viðhafa við allar aðstæður.           

 

7.3. Unghundaflokkur, UF

Í UF skal dómari sérstaklega veita eðlislægum veiðieiginleikum unghundsins athygli. Dómari skal sérstaklega horfa til veiðiáhuga, orku, úthalds og hvernig hundurinn skipuleggur og nýtir sér leitina. Dómarinn má líta framhjá smávægilegum brestum í hlýðni og fuglavinnu sem rekja má til ungs aldurs hundsins eða reynsluleysis. Heiðrun á standi er ekki krafist í UF, en skal vera þeim hundum í hag sem það gera.

Unghundur þarf að sýna fuglavinnu í það minnsta einu sinni í prófinu til að eiga möguleika á 1. einkunn (þ.e. stand, reisningu, ró við uppflug og skot og eftirleit.)

 

7.4. Opinn flokkur, OF

Í OF skal hundurinn heiðra stand ef aðstæður leyfa. Heiðrun á standi með skipun er viðurkennd, en frjáls heiðrun er kostur. Neiti hundur að heiðra stand og stelur eða truflar stand, telst það stór galli. Slíkur hundur skal ljúka prófi með 0 einkunn í OF.

 

Hund sem þarf að þvinga til að reisa fugl, skal dæma strangt. Hundur sem alls ekki vill reisa fugl fær 0 einkunn.

 

Til að fá 1. einkunn skal hundur sækja útlagða bráð, í sem beinustu framhaldi af fuglavinnu, hafa fengið viðurkennda sóknarvinnu í prófi fyrir standandi fuglahunda sem staðfest er með umsagnarblaði á staðnum eða framvísa sækivottorði á staðnum. Sækivottorð skal ekki vera eldra en tveggja ára.

 

Til að fá sækivottorð þarf hundur að uppfylla eitthvert af neðangreindum skilyrðum.

 

1. Hafa staðist sérstakt próf fyrir sækivottorð sem haldið er vor og haust ísamráði við deildir í tegundarhópi 7. Sem er liður 9.5.d. í leita og sækja.

2.  Hafa staðist Alhliðapróf í tegundarhópi 7.

3.  Hafa fengið 7 stig eða meira í leita-sækja á sækiprófi fyrir tegundarhóp 7 í OF.

           

Með sókn er átt við að hundurinn finni og afhendi leiðanda sínum fuglinn óskemmdan samkvæmt skipun. Dómari getur krafist að leiðandi aðstoði hundinn við sókn.

 

Öll ákveðin og rétt útfærð sókn er jákvæð. Galla í sókn skal dæma strangt. Neiti hundur að sækja lýkur hann prófi eins fljótt og auðið er með einkunn í OF.

 

7.5. Keppnisflokkur, KF

Í KF er krafist heiðrunar á standi makkers ef aðstæður leyfa og þegar það á við, hjálp leiðanda er leyfileg. Hundur skal sækja útlagða eða fellda bráð í sem beinustu framhaldi af fuglavinnu þó einugis með leyfi dómara. Ekki má setja hund í taum eða halda í hund án leyfis dómara.

 

Í KF er útsláttaraðferð notuð þannig:

 

a) 1. umferð.

Þegar allir hundar hafa verið prófaðir tilkynna dómarar hvaða hundar halda áfram í 2. umferð.

 

b) 2. umferð.

Ef engin fuglavinna hefur náðst eftir tvær umferðir tilkynna dómarar hvaða hundar halda áfram í næstu umferð keppninnar.

 

c) Lokaumferð.

Í lokaumferð taka eingöngu þátt þeir hundar sem öruggir eru með verðlaunasæti.

Þeir hundar sem hljóta sæti fá umsögn.

 

8. Einkunnagjöf

 

8.1. Aðalreglur

Til þess að fá 1. einkunn skal hundurinn hafa fundið fugl, tekið sjálfstæðan stand og reist fuglinn. Einnig verður að skjóta yfir hundinn eftir að fuglinn hefur tekið flugið og hundurinn þarf einnig að sýna eftirleit.

 

8.2. Einkunnastig

a) UF og OF:

1. einkunn fær hundur sem dómari álítur vera framúrskarandi veiðihund sbr. 7. gr.    Hundurinn skal prófaður í minnst klukkustund.

 

2. einkunn fær hundur sem dómari álítur vera mjög góðan veiðihund en getur ekki fengið 1. einkunn vegna minniháttar mistaka.

 

3. einkunn fær hundur sem dómari telur vera góðan veiðihund.

 

0. einkunn fá þeir hundar sem ekki uppfylla ofngreind skilyrði að mati dómara eða hafa ekki fengið tækifæri til að sanna hæfni sína.

 

 

b) KF:

Verðlaunasæti.

Í KF er gert ráð fyrir háum gæðakröfum. Venjulega skulu veitt verðlaun fyrir 1.- 6. sæti í hverjum keppnishóp, þegar um eins- tveggja-, eða þriggja daga próf er að ræða.

 

Hundar sem ná 1. og 2. sæti í KF, KF undanúrslit eða KF úrslit, skulu prófaðir á móti hvor öðrum í keppninni. Önnur röð keppenda er skv. ákvörðun dómara.

 

Hægt er að veita hundi meistarastig (MS) og vara meistarastig (vMS) í KF.

Þá þarf hundurinn að sýna einstaklega framúrskarandi vinnu eða tilburði.  Hann þarf að taka sjálfstæðan stand, reisa fugl,vera rólegur við uppflug og skot, eftirleita og sækja útlagða bráð, en þarf þó ekki að sanna heiðrun eða tilkynna rjúpu.

 

9. Sérreglur um sæki og alhliða veiðipróf fyrir standandi fuglahunda

 

9.1 Almennt

Alhliða veiðipróf samanstendur af vettvangsvinnu, að sækja í vatn, sækja á slóð og sækja með leitarvinnu. Prófið má framkvæma með því að sameina allar greinar og útfæra í einu og sama prófinu og kallast það þá alhliðapróf, eða skipta því þannig að vettvangsvinna er tekin í einu prófi og sóknarvinnu í öðru prófi og kallast það þá samsett próf. Vettvangsprófið má útfæra sem sjálfstætt próf eða nota árangur úr venjulegu opnu prófi.

 

9.2. Einkunnagjöf

Fyrir sókn er gefin 1., 2. eða 3. einkunn sækir auk 0. einkunn sækir.

Í sækiprófi er gefin skrifleg umsögn og stig frá 0-10 samkv. meðfylgjandi töflu:

10 = Afburða.

8-9 = Framúrskarandi.

6-7 = Mjög gott.

4-5 = Gott.

2-3 = Lélegt.

0-1 = Slæmt.

 

Til að fá 1. einkunn þarf minnst 8 stig í hverri grein.

Til að fá 2. einkunn þarf minnst 6 stig í hverri grein.

Til að fá 3. einkunn þarf minnst 4 stig í hverri grein.

 

Til þátttöku í KF í vettvangsvinnu nægir ekki að hundur hafi eingöngu fengið 1. einkunn fyrir sækivinnu. Besta árangur í sækivinnu (sækja í vatn, sækja á slóð og leita/sækja) í einu og sama prófinu má tengja einu prófi í vettvangsvinnu til að ná fullnægjandi árangri í samsettu prófi. Bæði prófin þurfa að vera tekin á sama almanaksárinu.

Þegar prófað er í öllum greinum í sama prófinu (vettvangs- og sækiprófi) þ.e alhliðapróf,

er ekki hægt að nota árangur í einstökum greinum með árangri úr öðrum prófum.

 

Einkunnargjöf er:

1., 2. og 3. einkunn UF/OF/KF-S og 1., 2. og 3. einkunn UF/OF/KF-A. Hundur sem fær minna en 4 stig í einni prófgrein, fær 0. einkunn í prófinu.

 

9.3. Stigagjöf

Einkunnir og verðlaunasæti úr vettvangsvinnu gefa stig til móts við stig úr sækiprófi samkvæmt eftirfarandi töflu:

 

OF/UF

Árangur: Stig.

1. eink. OF eða UF 8.

2. eink. OF eða UF 6.

3. eink. OF eða UF 4.

KF

Árangur: Stig.

1. KF MS 10.

1. KF 9.

2. KF vMS 9.

2. KF 8.

3. KF 7.

4. KF 6.

5. KF 6.

6. KF 6.

 

9.4 Skráning árangurs

Skráning árangurs hjá HRFÍ fyrir samsett veiðipróf fyrir standandi fuglahunda, þar sem vettvangsvinna er tekin í venjulegu veiðiprófi, er eftirfarandi:

 

Hundeigandi skal senda ræktunardeild viðkomandi hunds yfirlit yfir þann árangur sem óskast skráður, bæði í vettvangsvinnu og sókn. Beiðni skal fylgja afrit af prófumsögninni þar sem fram kemur nafn og ættbókarnúmer hundsins, hver var skipuleggjandi prófsins, prófstaður, dagsetning og skráningarnúmer prófsins (fæst hjá prófstjóra).

 

9.5 Útfærslur á einstökum prófliðum

Við próf í vatnavinnu, vinnu á slóð og leita-sækja, eru hundarnir prófaðir einn og einn. Ef hundurinn finnur ekki bráðina, má leiðandi hans kalla hann að byrjunarstað og láta hann byrja upp á nýtt.

 

Þegar prófið er auglýst, skal koma fram hvaða bráð verður lögð til. Þátttakendur geta komið með eigin bráð sem dómari verður að samþykkja fyrir próf í samráði við prófstjóra. Nota skal löglega veidda bráð. Nota má þídda bráð úr frysti.

 

a) Vettvangsvinna

Við próf í vettvangsvinnu eru sömu áherslur lagðar á eiginleika hundsins og í venjulegu

veiðiprófi fyrir standandi veiðihunda samkv. 7. gr., en þó með þeirri undantekningu að í stað einkunna eru gefin stig.

 

Þegar próf í vettvangsvinnu er tekið í venjulegu veiðiprófi, vísast í töfluna í grein 9.3. og á það einnig við um vettvangsvinnu í KF.

 

b) Vatnavinna

Prófa skal áhuga hundsins á að vinna í vatni, hæfni hans til að vinna með leiðanda sínum í að staðsetja bráð og sækja hana í vatn. Við upphafsstað skal dómari tilkynna leiðanda hvar hann og hundurinn eiga að vera þegar fuglinum er kastað. Það skal vera minnst 5 metra frá vatnsbakkanum og staðsetningin þannig að hundurinn hafi góða möguleika á að sjá þegar fuglinum er kastað. Á þessum sama stað skal leiðandi hundsins halda sig á meðan hundurinn vinnur og má hann aðeins stjórna hundinum með bendingum, köllum og flautu. Hundurinn skal skila á sama stað.

 

Bannað er að hjálpa hundinum með auka byssuskoti, steinkasti eða öðru álíka. Hundurinn á að sitja laus við hæl þar til að dómari gefur leyfi til að sækja.

 

Vatnavinna í UF er þannig að fuglinum er kastað frá ströndinni út á djúpt vatn. Ekki skal hleypa af skoti.

Vatnavinna í OF er þannig að strax á eftir skoti er fugli kastað t.d. frá landi eða báti, minnst 50 metra frá byrjunarstað. Leiðin sem hundurinn þarf að fara til að sækja fuglinn má að hluta til vera yfir votlendi. Þann hluta leiðarinnar sem hundurinn þarf að synda, skal reyna að velja þannig að aðstæður séu sem líkastar frá einu prófi til annars. Lengd að bráð skal ekki vera meiri en u.þ.b. 100 metrar frá byrjunarstað. Dómari ákveður hvenær sókn er lokið.

 

c) Vinna á slóð (aðeins í OF)

Prófa skal eiginleika hundsins til að rekja slóð og sækja særðan fugl.

 

Nota má þídda bráð úr frysti. Slóðina skal leggja í sveigjum með aðalstefnu sem mest í meðvind. Slóðin skal vera að hluta á opnu svæði og hluta í hávöxnu grasi og í nægilegri fjarlægð frá slóð síðasta hunds.

 

Byrjunarstaður skal merkjast þannig að leiðandi hundsins geti séð hvort hundurinn fari rétt að fyrsta merki. Við enda slóðarinnar verður að skilja eftir sömu tegund af bráð og notuð var við gerð slóðarinnar.

 

Leiðanda hundsins skal vísað á byrjunarstað og sýnt í hvaða átt slóðinn liggur.

 

Slóðin skal vera minnst 200 metra löng og með minnst 3 stefnubreytingum.

Hundinn má hafa í taum á byrjunarstað, þar sem hann skal leystur.

Samkvæmt skipun skal hundurinn á sjálfstæðan hátt finna slóðina sem byrjar í ferning sem er um það bil 10 metrar á kant og er u.þ.b. 20 metra frá byrjunarstað.

 

Fyrsta merking á slóðinni skal vera u.þ.b. 50 metra frá ferningnum, eftir það má leiðandi engin afskipti hafa af hundinum.

 

Leiðandi hundsins skal halda sig á byrjunarstað á meðan hundurinn vinnur.

Hundurinn skal taka bráðina án sérstakrar skipunar og færa leiðanda sínum.

 

d) Leita-sækja

Prófa skal hæfileika hundsins til að leit að og sækja bráð sem er dauð eða særð og hefur ekki skilið eftir neina slóð.

 

Bráðinni skal komið fyrir þannig að hún sé ekki sýnileg frá byrjunarstað og án þess að leiðandi hundsins eða hundur hafi séð.

 

Tryggja þarf, að hundurinn geti ekki notfært sér slóð þess sem kom bráðinni fyrir.

Dómari kynnir í hvaða átt bráðin er og staðsetningu á hvar hundurinn á að byrja og afhenda bráðina og skal leiðandi bíða á þeim stað á meðan prófið stendur yfir. Samkv. skipun skal hundurinn leita á umræddu svæði, finna bráðina, og afhenda leiðanda sínum strax.

Leiðandi hunds má leiðbeina hundinum með bendingum, köllum og flautu.

Dómari ákveður hvenær hundurinn hefur lokið prófi.

Leita-sækja í UF skal vera þannig, að vegalengdin frá byrjunarstað að útlagðri bráð skal vera minnst 20 metrar. Prófsvæðið skal vera yfirsjáanlegt, opið svæði og bráðinni þannig fyrir komið að vindurinn nýtist hundinum sem best hverju sinni.

Leita-sækja í OF skal vera þannig að bráðin eru tveir fuglar sem lagðir eru út með minnst 10 metra millibili og minnst 50 metra frá byrjunarstað. Prófsvæðið skal vera að hluta opið svæði og að hluta í þéttum gróðri. Til að fá viðurkenningu þarf hundurinn að sækja báða fuglana og afhenda þá leiðanda sínum.

 

10. Íslenskur veiðimeistari ISFtCh

 

Til að verða íslenskur veiðimeistari ISFtCh þarf hundur að hafa náð eftirfarandi árangri á

veiðiprófum HRFÍ.

 

 1. einkunn í OF.

 2x MS eða 1x MS + 2x vMS í KF.

- 25 stig samkvæmt stigatöflu hér að neðan.

 Auk þess þarf hundurinn:

Exellent eða Very good á viðurkenndri hundasýningu eftir að hundurinn er orðinn fullra  24 mánaða.

ID merktur skv. reglum HRFÍ.

 

Stigatafla til útreikninga á stigum til íslensks veiðimeistara ISFtCh:

 

MS og vMS : 1 stig.

1. einkunn UF: 2 stig.

1.einkunn OF: 3 stig.

1.einkunn Alhliðapróf : 5 stig. Og gefur MS einu sinni á ferlinum.

1.einkunn OF-S: 1stig

 

Keppnisflokkur KF: Sæti í KF gefa stig sem eru breytileg eftir fjölda hunda sem taka þátt hverju sinni skv. meðf. töflu:

Fjöldi hunda 1. sæti 2. sæti 3. sæti 4. sæti 5. sæti 6. Sæti.

10 eða færri 7 stig  6 stig  5 stig  4 stig 3 stig  2 stig.

11-20      8 stig  7 stig  6 stig  5 stig 4 stig  3 stig.

21-30      9 stig  8 stig  7 stig  6 stig 5 stig  4 stig.

fleiri en 31 10 stig  9 stig  8 stig  7 stig 6 stig  5 stig.

 

Erlendur veiðimeistari þarf einu sinni að ná 1. sæti með MS eða vMS í KF á Íslandi til að hljóta titilinn ISFtCh.

 

11. Íslenskur Alhliða veiðimeistari ISCFtCh

Til að verða íslenskur alhliða veiðimeistari þarf hundur að vera veiðimeistari ISFtCH og ná 1 x 1. einkunn í alhliðaprófi eða 2 x 1. einkunn í samsettu prófi.

Exelent eða Very good á viðurkenndri hundasýningu eftir að hundurinn er orðinn fullra 24 mánaða.  Hann skal einnig vera ID merktur skv. reglum HRFÍ.

Áunnin réttindi til veiðimeistara haldast á þeim hundum sem fæddir eru fyrir 01.01.2013.

 

12. Breytingar á veiðiprófsreglum fyrir tegundahóp 7.

Heildarendurskoðun veiðiprófsreglna skal fara fram á 5 ára fresti að frumkvæði deilda í tegundarhópi 7. 

Starfandi deildir í tegundahóp 7 skulu tilnefna 1 fulltrúa hver í endurskoðunarnefnd og skal nefndin fara yfir innkomnar athugasemdir við gildandi reglur, taka afstöðu til þeirra, kynna breytingar, kalla eftir athugasemdum frá félagsmönnum, stjórnum deildanna og dómararáði áður en hún skilar fullmótuðum tillögum til stjórnar HRFÍ til samþykktar.

Reglurnar eru þó alltaf opnar fyrir minniháttar breytingum á milli heildarendurskoðanna ef brýn nauðsyn er á. Stjórnir deildanna skulu þá koma saman og ræða slíkt og leggja fyrir HRFÍ til samþykkis ef breytinga er þörf.  Einhugur allra stjórna í tegundhópi 7 þarf að ríkja um slíkar breytingar.
Nýjar myndir

Sýnishorn úr myndasafni númer 91
Hjarta

2 mynd(ir)

Sýnishorn úr myndasafni númer 87
Myndasamkeppni FHD 2014

48 mynd(ir)