Fuglahundadeild mynd 16
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7478535

Sýningardagurinn


Deila
Fyrir hundasýningu er gott að fara á sýningaþjálfun. Fuglahundadeild hefur reglulega staðið fyrir sýningaþjálfun. Í sýningaþjálfun eru æfð helstu atriði sem hundur og eigandi þurfa að gera til að auðvelda dómara starf sitt.

Þegar halda skal á hundasýningu er gott að fara tímanlega af stað. Þá þarf að vera búið að sinna grunnþörfum hundsins og klósettferðum. Gott er að vera kominn á sýningarsvæðið hálfri til einni klukkustund fyrir þann tíma sem þín tegund er áætluð í dóm. Einnig er gott að byrja á því að innrita sig og kanna framgang sýningar og sækja svo hundinn út í bíl. Það er á ábyrgð sýnanda að vera mættur á réttum tíma við sinn dómhring. Athugið að gæta þarf vel að hundum sem bíða úti í bíl. Í sól getur bílinn auðveldlega orðið dauðagildra fyrir hundinn á skömmum tíma, því er nauðsynlegt að gæta að því að hafa bílinn í sem mestum skugga og að lofta vel út. Hundur sem beðið hefur úti í köldum bíl getur verið stirður og með kuldahroll þegar inn er komið, það getur orðið til þess að hundurinn sýnir ekki sitt besta.

Við innritun fær sýnandi afhent sýningarnúmer og sýningarskrá. Sýningarnúmerið skal bera hægra megin. Sýningarnúmerið gefur til kynna í hvaða röð sýnandi fer inn í dómhring, í sýningarskrá kemur einnig fram hvar í röðinni þinn hundur kemur inná og í hvaða flokki hann keppir. Yngstu hundarnir fara fyrst inn í hring. Hundar og tíkur dæmast hvor í sínu lagi.

Fyrir hundasýningu er gott að vera búin að festa kaup á hentugum sýningartaum og venja hundinn við hann. Best er að sýna hundinn á fallegu brokki. Hundur er ávallt vinstra megin við sýnanda og sýningartaumur í vinstri hendi. Gæta skal þess að stilla sýningartauminn þannig að hann flaxist ekki og trufli þannig auga dómarans. Velja skal fatnað við hæfi, best er að velja föt í lit sem er andstæður lit hundsins. Ef þið ætlið að notast við hundanammi, hundadót eða væng getur verið nauðsynlegt að velja föt með vasa.

Fyrst hlaupa hundar/tíkur í sama flokki einn hring og síðan fer einn hundur í einu til dómara. Dómari skoðar heildarsvip hunds, tennur, byggingu, feldgerð o.s.frv. Á karlhundum kannar dómari hvort að eystu séu rétt staðsett. Þegar dómari hefur skoðað hundinn biður hann sýnanda e.t.v. um að hlaupa hring, fram og til baka eða í þríhyrninginn. Að lokum skrifar dómari umsögn. Til að auðvelda dómara störf sín er nauðsynlegt að stilla hundi upp fyrir framan dómara eða dómaraborð. Góð regla er að fara þó ekki nær dómara eða dómaraborði en sem nemur tveimur metrum. Með því móti ætti dómari að hafa góða sýn á hundinn.

Til að gera hundasýninguna sem ánægjulegasta fyrir hundinn er ekki úr vegi að luma á góðu hundanammi, væng eða hundadóti. Við gætum þess þó að trufla ekki aðra sýnendur og hunda inni í hring.

Munum að þegar heim af hundasýningu er haldið þá erum við með sama hundinn og haldið var af stað með. Ef álit dómara er okkur ekki að skapi þá gerum við bara aðra tilraun næst. Þetta er jú bara álit einnar manneskju.

Hér er hægt að nálgast mjög góða samantekt Brynju Tomer um allt er viðkemur hundasýningu.