Fuglahundadeild mynd 8
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7478542

Veiðar fuglahunds


Deila
Veiðar fuglahunds

Á rjúpnaveiðum með þjálfuðum fuglahundi gengur eigandinn rólega um veiðislóðina, en hundurinn leitar reglubundið út frá honum. Þegar hundurinn finnur lykt af rjúpu, heldur hann upp í vindinn þaðan sem lyktin berst. Hann leitar áfram þvert á vindinn sem ber með sér rjúpnalyktina, en þrengir smám saman leitarsvæðið þar til hann er svo stutt frá rjúpunni að hann geti staðsett hana nákvæmlega á lyktinni. Þar stöðvar hundurinn, stendur sem klettur og bendir nefinu beint á fuglinn.

Eigandinn, sem fylgist náið með fuglahundinum, sér þegar hann finnur rjúpnalyktina og hann tekur því stefnuna að honum. Þegar hundurinn stendur og bendir með nefinu beint upp í vindinn sem ber lykt af rjúpunni, þá fer eigandinn upp að hlið hans, setur skot í byssuna og reynir að átta sig á því hvar rjúpan situr. Hann lætur hundinn síðan reisa rjúpuna upp. Þegar rjúpan flýgur upp, sest hundurinn og eigandinn skýtur á fljúgandi rjúpuna.

Eitt skulum við vita. Til að veiðarnar fari fram með framangreindum hætti og við höfum ánægju af því að veiða með okkar fuglahundi, verður hundurinn að vita til hvers er ætlast af honum. Grunninn að því leggjum við með hlýðniþjálfun. Það er afar ólíklegt að hundur á veiðislóð veiði okkur til ánægju, ef hann ekki hlýðir heima við eða þar sem engin er rjúpnalyktin í loftinu. Þjálfun fuglahunda er ekki síður skemmtileg, en hún krefst markvissrar og agaðrar þjálfunar til að tryggja að hundurinn verði afkastamikill og öruggur í leit að rjúpu, á standi og við skot. Það er ævintýri líkast að veiða með góðum fuglahundi og að njóta einstæðra hæfileika fuglahunds til þess að finna bráð sem maður síðan fæst við með hjálp hundsins.