Fuglahundadeild mynd 2
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7571498

Rjúpan og hundurinn


Deila
Rjúpan og hundurinn

- Rjúpan og hundaþjálfun

Rjúpur, sem eru grasbítar halda sig mest á grónu landi að vori og sumri, en leita gjarnan í urð og fjalllendi þegar haustar og þær fara í hvítan vetrarbúninginn.

Til að undirbúa haustþjálfun fuglahundsins þíns, skaltu um sólsetursbil að vori setjast niður á hæðardragi í lyngmóum eða í opnu kjarrlendi. Þú mátt vera viss um að þú kemur fljótt auga á rjúpnakarra sem hreykja sér á hóla, hæðir eða mæni sumarhúsa. Þeir lyfta sér gjarna til flugs og fljúga með hröðum vængjaslætti bratt upp í nokkurra hæð, en svífa síða þöndum vængjum að næsta hól og ropa ógurlega, en bæta svo um betur með ropi þegar þeir setjast. Rjúpnakarrar, sem skarta gjarna vetrarbúningi langt fram í júní, helga sér óðul og auglýsa eignarrétt sinn á svæðinu með ropi og listflugi. Með ropinu eru karrarnir einnig að sverma fyrir hænunum.

Þegar þú að vori til, í apríl og maí, sérð karra hreykja sér á hól þá máttu vita að hann er þar á sínu óðali og þar mun hann dvelja fram á sumar. Líklega er rjúpan í sumarbúningi að læðupokast í varphugleiðingum á óðalinu. Þegar þú finnur þér karra, þá hefurðu fundið þér og hundinum þínum kæra félaga fyrir alvöru veiðiþjálfun. Þú mátt þó ekki reyna um of á þolrif hans eða hennar, þau þurfa jú að sinna varpinu og þú vilt gjarnan sjá þau með stóra ungahóp í ágúst. Rjúpan liggur á í um 3 vikur, en ungarnir klekjast úr eggjum síðast í júní. Því er ekki ráðlegt að þjálfa hunda á rjúpnaslóðum lengur en fram í byrjun maí. Rjúpnafjölskyldur eru staðbundnar fram á haust og því hægt að fara á slóð vorkarra til þjálfunar strax er kemur fram í ágúst.

Ástæða er til að hafa fuglahunda í taum yfir varp og ungatímann, en leyfa þeim einungis að hlaupa frjálst á berum melum eða í sandfjörum þar sem ekkert varp er nærri. Rjúpur með ófleyga unga fljúga jafnan í veg fyrir lausa hunda til að draga þá í burt frá ungahópnum. Þær kurra þegar þær bresta upp og hvetja þannig ungana til að fela sig og kúra sig niður. Rjúpurnar fljúga síðan gjarna rétt framan við nefið á hundinum, svo tryggt sé að hann gleymi alveg stað og stund í eltingarleik. Þannig dregur rjúpan hundinn í burtu frá ungahópnum, í eltingarleik sem þær vinna alltaf. Ef hundurinn hættir eltingarleiknum og stoppar of nærri ungunum, þá snýr rjúpan við og sest skammt frá hundinum þar sem hún læst vera vængbrotin. Hún kvakar ámátlega, drattast um og ropar til að vekja athygli hundsins á sér. Jafnvel þrautagaðir fuglahundar eiga erfitt með að sitja á sér við þessa freistingu, þegar rjúpan leggur allt undir til að draga þá í burtu frá ófleygum ungunum sem kúra í leyni eftir aðvörunarmerki rjúpunnar. Tveir til þrír svona rjúpnaleikir, geta eyðilagt algerlega veiðiþjálfun góðs fuglahunds.

Uppúr miðjum ágúst, eru rjúpnaungar jafna orðnir stórir og vel fleygir. Þá er forsvaranlegt að byrja að nýju þjálfun fuglahundana til veiða. Ekki leggja eina fjölskyldu í einelti, heldur farðu á nokkur veiðisvæði til þjálfunar. Þér til gamans geturðu líka leitað stig af stigi yfir stærra svæði og skráð hjá þér fjölda rjúpna í fjölskyldum. Niðurstöður af athugunum þínum á fjölskyldustærð rjúpna eru mikilvægar þeim náttúrufræðingum á Náttúrufræðistofnun Íslands, sem rannsaka lífshætti og stofnsveiflur rjúpunnar.

Ofreyndu ekki unga með endurteknum æfingum sama kvöldið. Þreyttir ungar eiga erfitt með að forðast rándýr sem sífellt leit að góðum málsverði. Þú skalt fylgjast með fuglalífinu kringum þig og kynntu þér lífshætti rjúpunnar og annarra fugla. Þannig býrð ykkur undir veiðar og lærir að skynja og skilja lífsbaráttu rjúpunnar, sem örugglega eykur virðingu þína fyrir henni og ánægju af sportlegum veiðum.