Fuglahundadeild mynd 13
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7478604

Korthals Griffon


Deila






Wirehaired pointing Griffon eða Korthals Griffon eins og tegundin er kölluð í Evrópu fær nafn sitt eftir uppfinnanda tegundarinnar Eduard Karel Korthals. Korthals var Hollendingur sem bjó í Frakklandi í kringum 1870. Hann átti sér þann draum að rækta hinn fullkomna fjölhæfa veiðihund sem væri með vinnusvæði ekki of langt frá eiganda sínum og væri þægilegur í þjálfun, með gott þol og væri húsbóndahollur. Hann hóf því línuræktun varfærnislega þangað til afkvæmi fóru að bera þá eiginleika sem uppfylltu markmið hans. Það eru ekki til neinar staðfestingar á þeim tegundum sem hann notaði en talið er að hann hafi notað meðal annars Otterhound, mismunandi Settera og Retrievers, Spaniels og Pointera. Náði hann fljótt athygli manna á þessarri nýju tegund sinni sökum dugnað hundanna í bendi- sem og sækivinnu. Þó að tegundin kallist tiltölulega ung hefur hún náð þónokkrum vinsældum sér í lagi í Bandaríkjunum en þó einnig í Evrópu og eru ávallt fleiri og fleiri sem heillast að þessarri skemmtilegu og vinnusömu tegund.

Korthals Griffon er tegund í miðlungs stærð eða í kringum 50-60cm á hæð og 23-31kg á þyngd. Þeir eru sterklega byggðir með stóran og langan haus til að auðvelda upptöku á bráð. Nef þeirra er alltaf brúnt með velopnar nasir og eru þeir því með gott lyktarskyn, hálsinn er langur og er búkurinn hlutfallslega lengri en hæðin. Þeir eru stottstífðir í þeim löndum sem það leyfa.

Korthals Griffon eru stríhærðir, með tvöfaldan feld. Þykkan og vel einangraðan ull/dúnkenndan undirfeld og yfirfeld sem er harðger og strír og stenst veður og vind. Þeir hafa þykkar augnabrýr og skegg sem er framlenging á undirfeld. Þeir eiga að vera silfurgráir með misjöfnum brúnum skellum. Korthals Griffon fara almennt lítið úr hárum en nauðsynlegt er að bursta yfir feldinn vikulega til að koma í veg fyrir að flækjur myndist og reita hann niður a.m.k. tvisvar á ári, oftar ef halda á hundinum í sýningarfeld.

Korthals Griffon eru ljúfir, glaðir, líflegir og elskuleg hundategund. Þeir eru almennt heilsuhraustir og er krafa fyrir ræktun mjaðmamyndir með þekktum niðurstöðum fyrir pörun hérlendis. Þeir eru sérlega mannelskir bæði við fullorðna og börn sem og önnur dýr og vilja ávallt vera í nálægð við fjölskyldu sína og fylgja þeim í hvert fótmál. Þetta eru harðgerir veiðihundar sem eru alltaf til í langa daga a veiðum og una sér best í veiðivinnu á opnum svæðum á landi sem og í vatni. Þetta er því orkumikil hundategund sem þarf góða daglega hreyfingu og er taumganga ekki nóg fyrir þá heldur þrífast þeir best að hafa stórt opið svæði að hlaupa um. Þeir eru gáfaðir, fljótir að læra, samvinnufúsir og þegar þeim er sinnt sem skildi eru þeir sérlega þægilegir inná heimili. Þeir eru ágætis vakthundar og passa uppá sig og sína. Korthals Griffon er þekktur fyrir að vera mjög skapgóðir og með mikinn vilja til að gera eiganda sínum til geðs. Því er oft sagt að ef þú lætur Griffoninn þinn (eins og þeir eru oft kallaðir) hafa nóg fyrir stafni að hugur þeirra fái að vinna og líkaminn að hreyfast þá áttu dásamlegan félaga sem fær þig til að brosa.

Nánari upplýsingar um tegundina og væntanleg got gefur tengiliður HRFÍ: Katla Kristjánsdóttir 844-4105 / Gunnar K Magnússon 895-5457 / iceglow19@gmail.com