Fuglahundadeild mynd 4
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7478490

Sýningarreglur HRFÍ


Deila

Sýningarreglur fyrir hundasýningar HRFÍ og sérdeilda þess

Gilda frá 1. janúar 2009.

Skipulag og stjórn

1. Stjórn HRFÍ tilnefnir fimm manna sýningarstjórn og sjö í framkvæmdanefnd sýninga.

Hlutverk sýningarstjórnar er að skipuleggja sýningar félagsins, sjá til þess að þær fari fram samkvæmt sýningarreglum, leysa mál eða deilur sem upp kunna að koma á sýningum og vera stjórn HRFÍ og deildum félagsins ráðgefandi varðandi sýningarmálefni almennt. Sýningarstjórn skiptir með sér verkum.

Hlutverk framkvæmdanefndar sýninga er að sjá um verklega framkvæmd sýninga félagsins, í samráði við sýningastjórn. Framkvæmdanefnd sýningar skiptir með sér verkum.

Sýningarskilmálar

2. Félagsmönnum HRFÍ og félagsmönnum í félögum viðurkenndum af HRFÍ er einum heimilt að skrá til þátttöku hunda sína á sýningar Hundaræktarfélags Íslands.
Við skráningu á sýningar skal nota staðlað skráningareyðublað HRFÍ.

3. Aðeins má sýna hunda sem skráðir eru í ættbók HRFÍ. Innflutta hunda má þó sýna án umskráningar, sé eigandi búsettur erlendis. Innflutningsleyfi og vottorð frá einangrunarstöð verða að fylgja með skráningarblaði og þurfa hundarnir að vera ættbókarfærðir hjá erlendu hundaræktarfélagi, viðurkenndu af HRFÍ.

Hundar af hundakyni sem ekki er viðurkennt af FCI, skulu aðgreindir sérstaklega í sýningaskrá á alþjóðlegum sýningum. Þeir geta ekki tekið þátt í keppni í tegundarhóp.

Íslenskan fjárhund með undanþáguskráningu má sýna á sýningum HRFÍ.

4. Óheimilt er að sýna skott- og / eða eyrnastýfða hunda sem fæddir eru á Íslandi eftir 22. júní 2001. Sama gildir um hund sem fluttur er inn frá landi þar sem skott- og/eða eyrnastýfingar eru óheimilar.

5. Hundur sem sýndur er á sýningum HRFÍ skal vera bólusettur gegn þeim smitsjúkdómum, sem leyfilegt er að bólusetja gegn hér á landi og varanlega auðkenndur með örmerki eða húðflúri. Starfsfólki sýningar er heimilt að lesa af örmerkingu/húðflúri hunda á sýningarstað.

Dýralæknisskoðunar er ekki krafist á sýningum HRFÍ, en séu sýndir fleiri en 50 hundar verður að tryggja dýralæknaþjónustu.

6. Óheimilt er að vera með aðra hunda á sýningarsvæðinu en þá sem skráðir eru til sýningar, í hundafimi, hlýðnikeppni og/eða önnur sýningaratriði.

Stranglega bannað er að koma með hvolpa yngri en 4 mánaða inn á sýningarsvæði HRFÍ.

Ávallt verður að hafa hunda í taumi á sýningarsvæði. Undantekning frá þessari reglu gildir aðeins í keppnishring við atriði eins og hlýðnikeppni, hundafimi og /eða önnur sýningaratriði.

Aldrei skal skilja hunda eftir eftirlitslausa á sýningarsvæðinu þannig að öryggi þeirra eða annarra sé ótryggt eða þeir valdi gestum, sýnendum og hundum þeirra ónæði.

7. Hundar sem komið er með á hundasýningu skulu almennt vera í góðu andlegu og líkamlegu ásigkomulagi. Sýnilega veikum, blindum eða heyrnarlausum hundi, hundi með húðsjúkdóm eða útvortis sníkjudýr skal vísa frá þátttöku. Leiki vafi á hvort eitthvað ami að hundi, getur sýningarstjóri, dómari eða dýralæknir krafist þess að hann verði skoðaður af dýralækni.

Hafi hundur orðið fyrir skaða sem hefur áhrif á útlit eða hreyfingar hans, en hann er að öðru leyti heilbrigður og dýralæknir getur staðfest með hvaða hætti skaðinn varð, skal sýnandi framvísa vottorði þess efnis til hringstjóra, fyrir dóm. Það er þó ætíð mat dómarans hvort skaðinn sé þess eðlis að ekki sé hægt að útiloka að hann hafi verið fyrir eða dylji annan hugsanlega galla eða hvort hann sé þess eðlis að hann útiloki að dómarinn geti metið útlit og hreyfingar hundsins út frá staðli hans.

8. Bannað er að hafa munnkörfur, rafmagnshálsólar eða gaddakeðjur á hundum á sýningasvæðinu.

Dómara eða sýningarstjóra er heimilt að vísa burtu grimmum eða á annan hátt hættulegum hundi.

9. Óheimilt er að stunda sölumennsku með hunda/hvolpa á sýningarsvæði. Ræktendum er óheimilt að auglýsa starfsemi sína á sýningarsvæði HRFÍ, nema í sýningaskrá.

Föt eða annað sem merkt er tiltekinni ræktun, hundi eða þ.h. eru stranglega bönnuð í ræktunardóm eða keppni í úrslitum.

10. Dómari skal ganga úr skugga um að hundur/rakki hafi rétt staðsett og eðlileg eistu. Hundur sem ekki hefur rétt staðsett og eðlileg eistu (sama hver ástæðan er) fær einkunnina 0 (disqualified). Óheimilt er að sýna hund, hafi eistu verið færð niður með skurðaðgerð.

Óheimilt er að sýna hvolpafulla tík sem gengin er meira en 42 daga, talið frá síðustu pörun, eða er með hvolpa yngri en 56 daga.

11. Hafi verið gerð aðgerð á hundi í því skyni að lagfæra útlitsgalla, eða hafi feldur hunds verið meðhöndlaður með einhverju því efni sem getur breytt lit eða gerð feldsins, er óheimilt að sýna hann eða gefa umsögn um hann.

Óheimilt er að klippa, reita eða blása hund á sýningarstað.

12. Velferð hundsins skal ætíð höfð að leiðarljósi á hundasýningum HRFÍ.

Skráning og skráningargjald

13. Skráning á sýningar HRFÍ skulu fara fram í gegnum öruggan vefþjón eða með eyðublaði sem póstlagt/símsent er í síðasta lagi daginn sem skráningarfrestur rennur út.

Skráningargjald verður að greiðast við skráningu, að öðrum kosti verður skráning ekki tekin til greina. Skráning er bindandi og skráningargjald aðeins endurgreitt samkvæmt reglum í 17. grein.

Eingöngu má skrá hund til þátttöku á sýningu undir því nafni sem hann ber í ættbók. Eigandi hunds ber ábyrgð á að allar upplýsingar á skráningarblaði séu réttar. Séu þær rangar, má neita skráningu eða jafnvel ógilda sýningardóm.

14. Sé villa í sýningarskrá, skal eigandi/sýnandi hunds vekja athygli hringstjóra á villunni.

Hundur sem er ekki skráður í sýningaskrá, má ekki taka þátt í sýningunni. Undantekning er gerð ef ástæðan er mistök sýningahaldara eða þriðja aðila (t.d. staðfest mistök banka eða þess sem sér um sýningaskrá) og má þá hundurinn taka þátt með svokallað b-númer. Upplýsingar um b-númeraða hunda skulu vera til sýnis við hringinn og þeirra skal geta í niðurstöðupappírum.

Óheimilt er að færa hund á milli flokka eftir að sýningaskrá hefur verið prentuð, nema um villu sé að ræða sem sýningahaldari ber ábyrgð á.

15. Óleyfilegt er að veita upplýsingar um hvaða hundar eru skráðir á sýningu eða afhenda sýningarskrá fyrr en á sýningardag. Dómari fær ekki aðgang að sýningarskrá fyrr en að sýningu lokinni.

16. Verði breyting á að áður auglýstur dómari muni dæma, skal sýnendum gerð grein fyrir breytingunni skriflega. Sé það ekki mögulegt, skal vekja athygli sýnenda á breytingunni við inngang á sýningarstað eða við dómhring.

17. Skráningargjald fæst aðeins endurgreitt í eftirfarandi tilvikum:

  • a. Ef skráningarblað er ekki tekið til greina.
  • b. Ef ljóst er eftir að skráningarfrestur rennur út, að áður auglýstur dómari muni ekki dæma: Helmingur skráningagjalds er endurgreiddur gegn skriflegri beiðni þar um, afhendingu sýninganúmers og framvísun greiðslukvittunar, í síðasta lagi áður en dómur í tegundinni hefst. Ef varadómari hefur verið tilgreindur fyrir tegundina, eru skráningagjöld ekki endurgreidd.

Ef sýning fellur niður vegna óviðráðanlegra ástæðna (force majeure), eiga eigendur skráðra hunda ekki rétt á endurgreiðslu skráningargjalda.

Skyldur og ábyrgð sýnenda

18. Aldurslágmark sýnanda hunds er 13 ára (á sýningarárinu) að undanskildum keppendum í ungum sýnendum, yngri flokki, sbr. gr. 56. Í dómi skal sýninganúmer hunds vera skýrt á hægri hlið sýnanda.

19. Sýnandi/eigandi ber ábyrgð á hundi og því tjóni sem hann kann að valda á sýningarstað. Sama á við um hund í bíl/hjólhýsi eða annars staðar utan sýningasvæðis. Deilur sem kunna að rísa milli sýnenda af þessum sökum, eru alfarið þeirra mál og Hundaræktarfélagi Íslands og sýningarstjórn þess óviðkomandi.

20. Sýnandi verður sjálfur að gæta þess að mæta tímanlega og við réttan dómhring með hundinn áður en dómar hefjast. Athygli er sérstaklega vakin á því að auglýstur sýningartími er leiðbeinandi og getur fyrirvaralítið breyst.

Hringstjóri metur hvort hundur komi of seint til dómhrings. Í slíkum tilvikum getur dómari ákveðið að gæðadæma hundinn (umsögn, einkunn) eftir að hundakynið hefur lokið keppni. Hundurinn getur þó ekki tekið þátt í úrslitum.

21. Stranglega er bannað að reyna að hafa áhrif á sanngjarnt gengi hunda í dóm. Einnig er bannað að annar aðili en sýnandi, innan eða utan hrings, hafi eða reyni að hafa áhrif á sýningu hunds.

Sýnandi má ekki ræða við dómarann að fyrra bragði þegar hundurinn er í dóm. Erindum skal beina til hringstjóra.

Óviðkomandi fólk má ekki fara inn í sýningarhring þegar verið er að dæma í honum.

22. Það er alfarið bannað að gefa hundi lyf sem með verkun sinni örvar, róar, er verkjaeyðandi, hefur áhrif á atferli, geðslag eða geta á annan hátt haft áhrif á frammistöðu hunds eða getu á sýningu. Sýningarstjórn getur farið fram á blóðrannsókn, leiki grunur á að hundi hafa verið gefin lyf með ofangreindri virkni.

23. Heimilt er að hætta við að sýna hund við aðstæður sem lýst er í 17 gr. Að öðrum kosti er óheimilt að hætta við að láta dæma hund sem mættur er í dómhring, nema með leyfi frá sýningarstjóra/dómara.

24. Harkaleg meðferð eða refsing á hundi á sýningarsvæði er stranglega bönnuð og getur leitt til brottvísunar frá sýningu og að hundur verði sviptur verðlaunum og við alvarleg brot – að máli viðkomandi verði vísað til frekari meðferðar sýningastjórnar eða stjórnar HRFÍ.

25. Aðili sem rekinn hefur verið úr HRFÍ eða sem hefur verið útilokaður frá sýningum HRFÍ eða annarra viðurkenndra FCI félaga, má ekki skrá eða sýna hund á sýningum HRFÍ. Sama gildir um þátttöku í ræktunar- eða afkvæmahóp. Regla þessi gildir einnig um aðila sem hefur sagt sig úr félaginu, hafi úrsögnin komið í veg fyrir að siðanefnd félagsins gæti fjallað á fullnægjandi hátt um mál á hendur honum. Eigandi ber ábyrgð á því að hundur sé ekki sýndur af útilokuðum aðila.

26. Bannað er að óvirða dómara eða á augljósan hátt gagnrýna störf hans. Sýnendur skulu sýna öðrum sýnendum og starfsfólki kurteisi. Sýnanda eða umboðsaðilum hans er skylt að fara eftir lögum og reglum HRFÍ, reglum er varða sýninguna ásamt öðrum tilmælum starfsfólks sýningar. Brot á þessu kann að varða frávísun af sýningarsvæði, að hundur verði sviptur verðlaunum og við alvarleg brot – að málinu verði vísað til frekari meðferðar sýningastjórnar eða stjórnar HRFÍ. Sýningastjóri getur vísað aðilum af sýningasvæðinu.

Dómarar, hringstjórar og starfsmenn

27. Dómari má ekki skrá eða sýna hund á sýningu sem hann dæmir sjálfur á, þann dag sem hann dæmir. Maki, nákomnir ættingjar eða heimilismeðlimir dómara mega skrá og sýna hunda (þó ekki hunda skráða á nafn dómara) af hundakynjum sem dómari er ekki að dæma umræddan dag. Hafi dómari, nákominn ættingi hans eða annar á heimili hans, átt (einn eða í sameign), haft um lengri eða skemmri tíma, selt, þjálfað eða snyrt hund á síðustu sex mánuðum fyrir sýninguna, má dómarinn ekki dæma umræddan hund.

Dómari má ekki eiga samskipti við sýnendur fyrir dóm. Gisting, matarboð, heimsóknir og keyrsla til og frá sýningu falla m.a. hér undir.

Á alþjóðlegum sýningum verða allir hundar sýndir af dómara sem ekki dæmir á sýningunni, að vera í eigu eða ræktaðir af honum sjálfum, samstarfsaðila, nákomnum ættingja eða heimilisfólki.

28. Dómaranemi og dómarlærlingur mega hvorki ská eða sýna hund á sýningunni þann dag sem þeir eru við nám í hring og ekki sýna hund undir dómara sem þeir læra hjá á sýningunni.

Öðru starfsfólki í dómhring er ekki heimilt að skrá eða sýna hund hjá dómara sem þeir starfa með á sýningunni. Þessi regla á einnig við um úrslit. Þessir aðilar mega skrá og sýna undir öðrum dómurum sýningarinnar.

Annað starfsfólk á dómsýningu má skrá og sýna hunda. Þó er því óheimilt að bera starfsmannamerki eða önnur auðkenni sem gefa til kynna að viðkomandi sé starfsmaður sýningar.

29. Aðilar sem siðanefnd HRFÍ hefur úrskurðað í sýningabann, mega ekki starfa á eða við sýningu á meðan bannið er í gildi.

Mótmæli

30. Umsögn dómara eða ákvörðun hans um einkunn, sæti eða verðlaun, er endanleg og verður ekki véfengd.

Niðurstöðu dóms má einungis breyta í eftirtöldum tilvikum:

    a. Ef sýnt er fram á tæknileg mistök eða villu í dómnum

  • b. Ef þátttaka hundsins fer gegn reglum HRFÍ

Huglægt mat dómarans kemur því aldrei til endurskoðunar.

Sýningastjórn (og eftir atvikum, stjórn HRFÍ) tekur afstöðu til þess hvort breyta eigi niðurstöðu dóms skv. 2. mgr:

  • a. Að frumkvæði sýningarstjórnar sjálfrar eða stjórnar HRFÍ, eða eftir ábendingu dómarans sjálfs,
  • b. Eftir mótmæli frá hundeiganda sem telur á sér brotið,

31. Vilji eigandi mótmæla dómi, eða telji hann að brotið hafi verið á sér á einhvern hátt, verður sýningarstjórn HRFÍ að hafa borist skrifleg mótmæli fyrir lok sýningar þann dag sem meint atvik átti sér stað, ásamt kærugjaldi sem skal nema tvöföldum sýningargjöldum fyrir opinn flokk. Beinist mótmælin gegn réttmæti 0 einkunnar sem gefin var vegna útilokandi galla samkvæmt staðli (disqualifying fault), skulu þau þó berast innan viku frá sýningardegi.

Mótmæli aðila sem ekki á beinna hagsmuna að gæta, eða ef formkröfum sbr. að ofan er ekki fylgt, verða ekki tekin til skoðunar. Verði mótmælin tekin til skoðunar, skal sýningastjórn úrskurða skriflega í málinu innan þriggja daga frá lok sýningar. Ef ómögulegt reynist að úrskurða innan þeirra tímamarka, t.d. vegna þess að ekki tekst að afla fullnægjandi upplýsinga fyrir þann tíma, skal stjórn HRFÍ fá málið til úrskurðar.
Verði mótmælin tekin til greina, og eftir atvikum, skal fella niðurstöðu dóms (einkunn/sæti) úr öllum skýrslum félagsins og skráningargjald ásamt kærugjaldi, endurgreiðist.

Úrskurði sýningarstjórnar má skjóta til stjórnar HRFÍ innan 30 daga frá dagsetningu hans, en úrskurður stjórnar HRFÍ er endanlegur.

Skýring einkunna

32. Í gæðadómi gefur dómari hundi einkunn fyrir útlit, hreyfingar og skapgerð og miðar við staðal hundakynsins, án samanburðar við aðra hunda sem skráðir eru í sama flokk. Þannig geta margir hundar í sama flokki, fengið sömu einkunn.

Í flokki þar sem gæðadómur fer fram, eru eftirfarandi einkunnir gefnar:

Excellent: Hundurinn kemst mjög nálægt staðli hundakynsins að gerð og byggingu, sýndur í frábæru líkamlegu formi og í góðu andlegu jafnvægi; stórglæsilegur og af háum gæðum. Kostir hans sem fulltrúa hundakynsins eru svo augljósir að óverulegir útlitsgallar draga hann ekki niður; tilhlýðlegur munur er á tík / rakka.

Very good: Hundurinn er dæmigerður að gerð og bygging hans er í góðu jafnvægi. Líkamlegt form er gott. Minniháttar gallar eru þolanlegir, enda kemur engin þeirra niður á heilbrigðri byggingu hundsins. Þessa einkunn má einungis veita hundi sem býr yfir glæsileik.

Good: Hundurinn er viðunandi hvað varðar gerð, en hefur sýnilega galla.

Sufficient: Hundurinn er sæmilegur að gerð en er þó ekki týpiskur fulltrúi hundakynsins, eða í lélegu líkamlegu formi.

0 einkunn (Disqualified): Hundur er ekki dæmigerður að gerð og byggingu fyrir hundakynið; hann sýnir árásargirni eða hegðun sem er í algeru ósamræmi við eiginleika hundakynsins; hann er ekki með tvö eðlileg og rétt staðsett eistu, hann er með tann- eða kjálkagalla, litar- eða feldgalla eða er albínói. Þessi einkunn er einnig gefin hundi þar sem gerð eða bygging hans kemur niður á heilsu hans eða almennu heilbrigði og hundi sem er með galla sem er óásættanlegur (disqualifying) samkvæmt staðli hundakynsins.

Ástæður 0 einkunnar skal alltaf tilgreina í umsögn og á niðurstöðublaði. Hundur, sem í þrígang hefur fengið einkunnina 0 vegna skapgerðar / hegðunar, skal útilokaður frá keppni á hundasýningum HRFÍ.

Hundar sem ekki hljóta einhverja af ofangreindum einkunnum, ljúka keppni með umsögnina:

Ekki hægt að dæma (EHD). Þessi umsögn er gefin hundi sem á því augnabliki sem dómarinn er að dæma hann, hreyfir sig ekki, víkur sér undan handfjötlun og skoðun dómara t.d. á tönnum, líkamsbyggingu, skotti og eistum, stekkur stöðugt upp á sýnanda, reynir að komast út úr hringnum eða hegðar sér þannig eða er þannig á sig kominn líkamlega að ekki er hægt að dæma hreyfingar hans eða líkamsbyggingu. Sama getur átt við um hund sem dómari telur sig sjá merki um eða hefur ríka ástæðu til að gruna að aðgerð hafi verið gerð á eða hann meðhöndlaður þannig að það geti haft áhrif á dóm.

Ástæðu umsagnarinnar skal getið í umsögn og á niðurstöðublaði.

Meistaraefni / Meistarastig

33. Íslenskt meistarastig / meistaraefni:
Veita má meistaraefni þeim Excellent hundum sem teljast framúrskarandi að gerð og eru að öllu leyti rétt byggðir með tilliti til ræktunarmarkmiðs tegundarinnar.

Meistarastig er síðan veitt þeim rakka / tík sem bestu sætaröðun hlýtur í keppni um besta rakka og bestu tík tegundar, af þeim hundum sem koma til álita fyrir stigið og hafa áður hlotið meistaraefni. Komi hundar í sætum 1-4 ekki til álita fyrir stigið, veitir dómari það hundi úr hópi þeirra sem eftir standa með meistaraefni og til álita koma fyrir stigið.

34. Hundur kemur ekki til álita fyrir meistarastig:

  • a) ef hann er þegar íslenskur sýningameistari (ISSCH) / íslenskur meistari (ISCH).
  • b) ef hann hefur þegar fengið tilskilinn fjölda íslenskra meistarastiga til að öðlast meistaranafnbót (ISCH eða ISSCH) og a.m.k. eitt þeirra eftir 24 mánaða aldur (fullcertaður).

Sýnandi skal láta hringstjóra vita að hundur hans komi ekki til álita fyrir meistarastig.

35. Alþjóðlegt meistarastig (CACIB)
Á alþjóðlegum sýningum keppa rakkar og tíkur um alþjóðlegt meistarastig (CACIB) og vara-alþjóðlegt meistarastig (Res-CACIB), í keppni um besta rakka og bestu tík tegundar. Dómarinn tilnefnir rakka og tík sem bestu sætaröðun hlýtur af þeim hundum sem til álita koma fyrir stigið og sem hann telur af yfirburða gæðum, og fær sýnandi spjald undirritað af dómara því til staðfestingar. FCI, Alþjóðasamtök hundaræktarfélaga, hafa endanlegt ákvörðunarvald um veitingu stigsins. Einungis þeir hundar sem hlotið hafa Excellent koma til greina fyrir CACIB. Hundur sem skráður er í ungliðaflokk eða öldungaflokk kemur ekki til álita fyrir CACIB.

Veita má Res-CACIB þeim rakka / tík sem næst stendur í sætaröðun þeim sem fengið hafa CACIB og til álita koma fyrir stigið.

36. FCI staðfestir ekki CACIB tillögu veitta hundi sem:

  • a) þegar hefur fengið titilinn C.I.B. (alþjóðlegur meistari) eða C.I.E. (alþjóðlegur sýningameistari) af FCI
  • b) hefur ekki fullar 3 kynslóðir (utan viðkomandi hunds) skráðar í FCI viðurkennda ættbók
  • c) Er ,,fullcertaður” og lágmark eitt ár hefur liðið á milli fyrsta og síðasta stigs
  • d) Er af hundakyni sem ekki er viðurkennt af FCI

Flokkaskipting og framgangur sýningar

37. Hundar og tíkur dæmast hvor í sínu lagi. Dómur skiptist í gæðaumsögn um hvern hund og keppni um sæti. Þegar dómari gefur gæðaumsögn, skoðar hann hundinn með tilliti til ræktunarmarkmiðs kynsins og gefur einkunn ásamt skriflegri umsögn, sem sýnandi fær afrit af. Einkunnarborði fyrir gæðadóm skal festur á sýningartaum. Að loknum gæðadómi keppa þeir hundar sem náð hafa tilskyldum árangri um sætaröðun. Fjórir bestu hundar í hverjum flokki fá sæti, að því tilskyldu að þeir hafi fengið amk. Very Good.

38. Hvern hund má einungis skrá til keppni í einum flokki (undanskilið er keppni í ræktunar- og afkvæmahóp). Skráning í flokka miðast við aldur hundsins og þann árangur sem hundurinn hefur náð áður. Hundur skal hafa náð tilskildum aldri fyrir viðkomandi flokk daginn áður en sýning hefst. Staðfesting á árangri þarf að berast fyrir lok skráningafrests á sýninguna.


39. Ungviði (valkvætt)

Ungviðaflokkur er fyrir hvolpa á aldrinum 4 - 6 mánaða.

Hvolpurinn fær skriflega umsögn en einkunn er ekki gefin. Keppt er um sætaröðun. Sérlega lofandi hvolpar geta fengið Heiðursverðlaun.

Hvolpur í fyrsta sæti sem jafnframt fær Heiðursverðlaun, keppir um titilinn ,,Besta ungviði tegundar”. Sá keppir síðan til úrslita um besta ungviði sýningar (eða dagsins, ef sýning stendur í tvo eða fleiri daga).

40. Hvolpaflokkur (valkvætt)

Hvolpaflokkur er flokkur fyrir hvolpa á aldrinum 6 - 9 mánaða.

Hvolpurinn fær skriflega umsögn en ekki einkunn. Keppt er um sætaröðun.

Sérlega lofandi hvolpar geta fengið Heiðursverðlaun.

Hvolpur í fyrsta sæti sem jafnframt fær Heiðursverðlaun, keppir um titilinn ,,Besti hvolpur tegundar”. Sá keppir síðan til úrslita um besta hvolp sýningar (eða dagsins, ef sýning stendur í tvo eða fleiri daga).

41. Ungliðaflokkur (skylda)

Ungliðaflokkur er fyrir hunda á aldrinum 9 – 18 mánaða.

Í ungliðaflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn.
Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist frammúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni.
Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka / bestu tík tegundar.

42. Unghundaflokkur (skylda)

Unghundaflokkur er fyrir hunda á aldrinum 15-24 mánaða.

Í unghundaflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn.

Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist frammúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni.

Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka / bestu tík tegundar.

43. Opinn flokkur (skylda)

Opinn flokkur er fyrir hunda sem eru 15 mánaða og eldri.

Hunda með íslenska meistaranafnbót (ISCH, ISSCH) er ekki hægt að skrá í opinn flokk.

Í opnum flokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn.

Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni.

Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka / bestu tík tegundar.


44. Vinnuhundaflokkur (skylda)

Vinnuhundaflokkur er fyrir hundakyn sem þurfa að skila vinnuprófi til að geta orðið alþjóðlegir meistarar, (C.I.B.), sbr. sérákvæði um meistarareglur fyrir einstök hundakyn (gr. 71-75). Flokkurinn er opinn hundum sem hafa uppfyllt kröfur skv. þeim og sem náð hafa 15 mánaða aldri. Ath. að vottorð um árangur þarf að berast í síðasta lagi fyrir lok skráningar.

Í vinnuhundaflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn.

Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni.

Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka / bestu tík tegundar.

45. Meistaraflokkur (skylda)

Þessi flokkur er opinn fyrir hunda sem náð hafa viðurkenndum meistaratitli (C.I.B, C.I.E, ISSCH, ISCH eða sambærilegum titlum FCI aðildarlanda eða frá félögum viðurkenndum af FCI). Að baki slíkum titli þurfa að vera amk. tvö meistarastig frá landinu sem veitti meistaranafnbótina og hundarnir þurfa að hafa náð 15 mánaða aldri.

Íslenskan meistara/sýningameistara skal skrá í meistaraflokk eða öldungaflokk.
Í meistaraflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn.

Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very Good, keppa um sætaröðun 1-4. Þeir hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni.
 
Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

46. Öldungaflokkur (skylda)

Til þátttöku í öldungaflokki má skrá hund sem náð hefur 8 ára aldri . Öldungur fær skriflega umsögn og einkunn. Öldungar með a.m.k. Very good keppa um sætaröðun 1-4. Öldungar í sérlega góðu formi geta hlotið Heiðursverðlaun. Excellent öldungar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins geta hlotið Meistaraefni.

Hundar með Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

47. Besti öldungur

Rakki og tík með 1. sæti í öldungaflokki og Heiðursverðlaun eða Meistaraefni, keppa um titilinn Besti öldungur tegundar. Sigurvegari þeirrar keppni fer áfram í keppni um titilinn Besti öldungur sýningar. Það gildir þó ekki um hunda sem vinna tegundahóp sem hundakynið tilheyrir (BIG-1) og keppa til úrslita um Besta hund sýningar.

Hundur sem skráður er í öldungaflokk getur hlotið íslenskt meistarastig, en hann getur ekki keppt um alþjóðlegt meistarastig (CACIB) á alþjóðlegum sýningum.


48. Besti rakki tegundar / besta tík tegundar

Allir hundar/tíkur sem hlotið hafa Meistaraefni keppa um sætaröðun 1-4 og titilinn Besti rakki tegundar / Besta tík tegundar.

49. Besti hundur tegundar

Besti rakki tegundar og besta tík tegundar keppa um titlana Besti hundur tegundar (BOB) og Besti hundur af gagnstæðu kyni (BOS). Dæmi fleiri en einn dómari viðkomandi tegund, skal sýningarstjórn tilnefna annan þeirra til að velja BOB.

BOB keppir síðan um sætaröðun 1-4 í þeim tegundarhópi sem hundakynið tilheyrir.

50. Besti hundur tegundarhóps

Á alþjóðlegum sýningum keppir BOB hvers hundakyns um titilinn Besti hundur tegundarhóps (BIG) og sætaröðun 1-4. Tegundarhópar eru tíu og gilda reglur FCI um hvaða hundakyn tilheyra hverjum. Dæma saman hunda í tegundarhópum 4 / 6 og hunda í tegundarhópum 7 / 8.

51. Besti hundur sýningar

Sigurvegari hvers tegundarhóps keppir til úrslita og sætaröðun 1-4 í Besta hund sýningar (BIS).

52. Afkvæmahópur (valkvætt)

Rétt til þátttöku með afkvæmahóp hefur tík/rakki með þrjú til fimm afkvæmi. Afkvæmin verða að vera skráð til þátttöku og sýnd í öðrum flokkum sýningar, þó ekki í hvolpaflokkum. Sama gildir um undaneldistík/rakka sem verða að vera skráð til þátttöku og sýnd í öðrum flokkum sýningar.

Afkvæmin og undaneldishundar mega ekki hljóta einkunnina 0 eða Ekki hægt að dæma. Aðeins má sýna undaneldisrakkann/tíkina með einn afkvæmahóp á viðkomandi sýningu. Afkvæmin verða að vera af sömu stærð og hafa sama feldlag.

Eigandi/sýnandi undaneldishunds/tíkur velur sjálfur þau afkvæmi sem hann vill sýna í afkvæmahópi. Sýnandi afkvæmahóps skal tímalega tilkynna hringstjóra hvaða afkvæmi hann hefur valið og gera eigendum þeirra viðvart í tíma.

Hópurinn fær umsögn og einkunn sem ein heild. Til að unnt sé að veita afkvæmahópi Heiðursverðlaun er megin áhersla lögð á að hópurinn sé jafn að gerð og gæðum og samleitur undaneldishundinum/tíkinni og telst það tegundinni frekar til framdráttar en sá árangur og einkunnagjöf sem einn einstakur hundur í hópnum hefur hlotið.

Sýnanda/eiganda ber að sýna hund í afkvæmahópi, óski eigandi ræktunartíkur/hunds þess.

Besti afkvæmahópur tegundar með Heiðursverðlaun keppir til úrslita um Besta afkvæmahóp sýningar (eða dagsins, ef sýningin stendur í tvo eða fleiri daga).

53. Ræktunarhópur (valkvætt)
Ræktunarhópur samanstendur af þremur til fimm hundum af sömu tegund frá einum og sama ræktanda (með sama ræktunarnafn). Ef fleiri en einn eru skráðir ræktendur hópsins skal þess getið. Ef aðili er ræktandi og jafnframt meðræktandi að öðru goti, má ekki sýna þau afkvæmi saman í ræktunarhópi.

Aðeins má sýna einn ræktunarhóp af sömu tegund frá sama ræktanda á viðkomandi sýningu.

Hundarnir verða að vera af sama stærðarflokki og hafa sama feldlag og lit, þar sem það skiptir máli, og vera skráðir til þátttöku í öðrum flokkum sýningar, þó ekki í hvolpaflokkum. Hundarnir mega ekki hljóta 0 í einkunn eða Ekki hægt að dæma.

Hópurinn fær umsögn og einkunn sem ein heild. Til að unnt sé að veita ræktunarhópi Heiðursverðlaun er megin áhersla lögð á að hópurinn sé jafn að gerð, gæðum og útliti, og telst það tegundinni meira til framdráttar en sá árangur og einkunnagjöf, sem einn einstakur hundur í hópnum hefur hlotið.

Ræktandi skal gera eigendum hunda sem hann hefur valið að sýna í ræktunarhópi viðvart í tíma. Ræktandi skal tilkynna tímalega til hringstjóra hvaða hunda hann hefur valið. Sýnanda/eiganda ber að sýna hund í ræktunarhópi, óski ræktandi þess.

Besti ræktunarhópur tegundar með Heiðursverðlaun keppir til úrslita um Besta ræktunarhóp sýningar (eða dagsins, ef sýningin stendur í tvo eða fleiri daga).

54. Parakeppni (valkvætt)

Í parakeppni er rakki og tík af sömu tegund í eigu sama aðila sýnd saman. Hundarnir verða að vera eldri en 9 mánaða. Tilgangur með parakeppni er að sýna fram á samleitni milli rakka og tíkur. Pör fá sætaröðun og par sem er frammúrskarandi að gæðum getur fengið Heiðursverðlaun. Besta par tegundar með Heiðursverðlaun keppir áfram um besta par sýningar (eða dagsins, ef sýningin stendur í tvo eða fleiri daga).

Sérstök ákvæði:

55. Dachshund (langhund) og Poodle verður að skrá og sýna í þeim stærðarflokki sem skráður er í ættbók. Endanleg staðsetning í stærðarflokk ákvarðast af dómara á fyrstu sýningu eftir að hundur hefur náð 15 mánaða aldri. Mæling dómara er bindandi. Þó er mögulegt að bera fram skriflega kvörtun til HRFÍ. Sé það gert, verður að fá samdóma álit tveggja sérfræðinga og er niðurstaða þeirra endanleg. Hljótist einhver kostnaður af þessu, skal eigandi hundsins bera hann.

Dachshund:

  • • Dachshund: Brjóstummál 35 cm. Efri þyngdarmörk um 9 kg.
  • • Miniature Dachshund: Brjóstummál frá 30 til 35 cm.
  • • Rabbit Dachshund : Brjóstummál að 30 cm.

Poodle:

  • • Standard poodles: Yfir 45 cm til 60 cm með frávikum upp á 2 cm.
  • • Medium poodles :Yfir 35 cm til 45 cm.
  • • Miniature poodles : Yfir 28 cm til 35 cm
  • • Toy poodles : Undir 28 cm (æskileg stærð um 25 cm).

The Papillon Continental Toy Spaniel / The Phalene Continental Toy Spaniel:

Hvolpar undan Papillon og Phalene eru skráðir það afbrigði sem ræktandi telur þá vera við 8 vikna aldur. Varðandi umskráningu á Papillon í Phalene eða Phalene í Papillon, þá þarf hundurinn að vera sýndur eftir 15 mánaða aldur á viðurkenndri FCI sýningu áður en hann er umskráður.

Telji eigandi hundinn vera annað afbrigði en hann var upphaflega skráður í ættbók, skal skrá hann á sýningu sem það afbrigði sem eigandi telur hundinn vera. Ef dómari samþykkir hundinn sem það afbrigði, er hægt að láta umskrá afbrigðið í ættbók.

Ungir sýnendur

56. Keppni ungra sýnenda er skipt í tvo aldursflokka. Þeir ungu sýnendur sem verða 10 ára á sýningarárinu taka þátt í yngri flokki en ungir sýnendur 14 ára og eldri (ártalið gildir) taka þátt í eldri flokki. Ungir sýnendur geta keppt í keppni ungra sýnenda út 17. aldursárið (ártalið gildir).

57. Ungum sýnanda er óheimilt að sýna tík sem er að lóða. Starfsfólki sýningar er heimilt að vísa ungum sýnanda frá keppni mæti hann með lóðatík.

58. Sá hundur sem ungmennið sýnir, verður að vera fullra 9 mánaða á sýningardag (sbr. gr. 38), skráður í ættbók HRFÍ og uppfylla þær reglur sem HRFÍ setur um sýningu hunda á sýningum HRFÍ.

59. Lögð er áhersla á að dæma framkomu unga sýnandans í dómhring, samspil hans og hunds og jafnframt hvernig hundur er sýndur.

60. Skráning í keppni ungra sýnenda verður að vera á sér skráningarblaði sem fæst á skrifstofu HRFÍ. Skráning telst ekki gild nema allar upplýsingar séu til staðar á skráningarblaði og að greiðsla hafi borist áður en skráningafresti lýkur.

61. Einkunna-og verðlaunaborðar

  • Besti hundur tegundar (BOB): Rauður og gulur borði
  • Besti hundur af gagnstæðu kyni (BOS): Hvítur og grænn borði
  • Alþjóðlegt meistarastig (CACIB): Hvítur borði
  • Vara-alþjóðlegt meistarastig (Reserve CACIB): Appelsínugulur borði
  • Meistarastig: Borði í íslensku fánalitunum
  • Meistaraefni: Bleikur borði
  • Meistaranafnbót: Rauður og grænn borði
  • Heiðursverðlaun: Fjólublár borði

Einkunn í gæðadómi:

  • Excellent : Rauður borði
  • Very good: Blár borði
  • Good: Gulur borði
  • Sufficient: Grænn borði
  • 0.einkunn: Ekki gefinn borði
  • „Ekki hægt að dæma”: Ekki gefinn borði

Sætaröðun

  • 1. sæti: Rauður borði
  • 2. sæti: Blár borði
  • 3. sæti: Gulur borði
  • 4. sæti: Grænn borði

Hundaræktarfélag Íslands áskilur sér allan rétt til að ákveða hvort og þá hvernig verðlaun eru veitt á sýningum félagsins.

Undanþágur

62. Stjórn Hundaræktarfélags Íslands getur, sé til þess brýn þörf eða aðstæður, gefið undanþágur frá sýningareglum.

Meistaratitlar

63. Íslenskur meistari (ISCH)

Til að hundur geti orðið íslenskur meistari verður hann að hafa fengið þrjú stig til meistara á þremur sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum. Eitt af þeim stigum skal veitt eftir 24 mánaða aldur hundsins. Hundar af vinnuhundakyni, sbr. sérreglur um meistaratitil fyrir vinnuhunda, verða einnig að uppfylla kröfur um árangur í vinnuprófum.

Hundur sem hlotið hefur meistaranafnbót hjá hundaræktarfélagi viðurkenndu af HRFÍ (FCI), þarf eitt íslenskt meistarastig á sýningu á vegum HRFÍ, eftir 24 mánaða aldur, til að geta fengið íslenska meistaranafnbót.

64. Íslenskur sýningameistari (ISSCH)

Hundar af vinnuhundakyni (sbr. sérákvæði fyrir nokkrar tegundir vinnuhunda) geta orðið íslenskir sýningameistarar (ISSCH) eftir að hafa fengið þrjú stig til meistara á þremur sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum. Eitt af þeim stigum skal veitt eftir 24 mánaða aldur hundsins.

Hundur sem hlotið hefur sambærilega sýningameistaranafnbót hjá hundaræktarfélagi viðurkenndu af HRFÍ, þarf eitt íslenskt meistarastig á sýningu á vegum HRFÍ, eftir 24 mánaða aldur, til að geta fengið íslenska sýningameistaranafnbót.

65. Eigandi hunds skal sækja um íslenska meistara- og sýningameistaranafnbót á þar til gerðu eyðublaði á skrifstofu HRFÍ. Með umsókninni skulu fylgja öll nauðsynleg gögn.

Við veitingu íslenskrar meistaranafnbótar (ISCH), fellur niður íslenskur sýningameistaratitill (ISSCH) sem sami hundur kann að hafa hlotið, enda felst sá árangur sem liggur að baki honum í ISCH titlinum.

66. Þegar hundur hefur hlotið staðfestingu á íslenskri meistara- eða sýningameistaranafnbót, skal hann sýndur í meistara- eða öldungaflokki. Ekki er hægt að skrá hund til þátttöku í meistaraflokki nema að staðfesting um meistaranafnbótina liggi fyrir áður en skráningafresti lýkur.

67. Alþjóðlegur meistari (C.I.B.)

Til að hljóta alþjóðlegan meistaratitil þarf hundur að hljóta fjögur alþjóðleg meistarastig (CACIB) á fjórum alþjóðlegum sýningum, sjá þó sérreglur um meistaratitil fyrir vinnuhunda (gr. 71-75). A.m.k. eitt ár verður að líða frá því að hundur fær sitt fyrsta stig og til þess fjórða. Þá skulu stigin hafa verið veitt af dómurum af a.m.k. þremur þjóðernum frá FCI aðildarlöndum.

68. Alþjóðlegur sýningameistari (C.I.E.)
Hundar af vinnu- og veiðihundakyni sem sýna þurfa fram á árangur í vinnuprófum til að eiga kost á C.I.B. titli, sbr. sérreglur um meistaratitil fyrir vinnuhunda (gr. 71-75), geta hlotið alþjóðlegan sýningameistaratitil með því að hljóta fjögur alþjóðleg meistarastig (CACIB) á fjórum alþjóðlegum sýningum frá dómurum af a.m.k. þremur þjóðernum frá FCI aðildarlöndum. A.m.k. eitt ár verður að líða frá því að hundur fær sitt fyrsta stig og til þess fjórða.

69. Eigandi sækir um alþjóðlegan meistara- og sýningameistaratitil fyrir hund á þar til gerðu eyðublaði á skrifstofu HRFÍ. Umsókninni skulu fylgja þau gögn sem sanna að hundurinn hafi uppfyllt skilyrði FCI til þessara titla. Hundur telst ekki alþjóðlegur meistari eða sýningameistari fyrr en staðfesting um titilinn hefur borist HRFÍ frá FCI.

70. Norðurlandameistaratitill
Til að hundur geti fengið Norðurlandameistaranafnbót (NORDUCH) þarf hann að hafa hlotið meistaranafnbót hjá þremur hundaræktarfélögum á Norðurlöndum (NKU).

Eigandi getur sótt um þennan titil á þar til gerðu eyðublaði á skrifstofu HRFÍ.

Með umsókninni skulu fylgja þau gögn sem sanna að hundurinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru hjá Hundaræktarfélögunum á Norðurlöndum (FCI). Veiting á þessum titli er alfarið háð samþykki viðkomandi Hundaræktarfélaga.


Sérákvæði um meistarareglur fyrir vinnuhunda

(Gildir fyrir hunda sem fæddir eru eftir 1. janúar 1999).

71. Ákvæði fyrir schäfer hund (166) í tegundarhópi 1.

Schäfer hundur þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að hljóta titilinn íslenskur meistari (ISCH):

  • a. Að hafa hlotið þrjú meistarastig á sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum, þar af eitt stig eftir 24 mánaða aldur.
  • b. Hundur þarf að vera röntgenmyndaður m.t.t. mjaðmaloss (HD) og olnbogaloss (AD)* (*Gildir fyrir hunda fædda eftir 1. janúar 2005) og niðurstöður þurfa að liggja fyrir.
  • c. Hundur þarf að hafa varanlegt auðkenni (örmerki/húðflúr).
  • d. Hundur þarf að hafa staðist vinnueiginleikapróf sem hér segir:
  • i. Skapgerðarmat.
  • ii. Sporleitarpróf viðurkennt af HRFÍ eftir 9 mánaða aldur.
  • iii. Bronsmerki í hlýðni. (Gildir fyrir hunda fædda eftir 1. janúar 2004).
  • e. Innfluttur hundur með IPOI próf (Schutzhund, SCHH1) jafngildir lið ii og iii.

72. Til að vinnuhundar sem tilheyra tegundahópum 1, 2, 3, 4, 5, 6 og vatna- og spanielhundar (Flushing/Water) í tegundahópi 8 og fædd eru eftir 1. janúar 2004 (Gildir um hundakyn sem þurfa að skila vinnuprófum skv. Breeds nomenclature lista FCI – stjörnumerktir í Working trials reit, án sviga), hljóti titilinn íslenskur meistari (ISCH), gilda eftirfarandi reglur:

  • a. Að hafa hlotið þrjú meistarastig á sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum, þar af eitt stig eftir 24 mánaða aldur.
  • b. Skapgerðarmat
  • c. Sporleitarpróf viðurkennt af HRFÍ eftir 9 mánaða aldur.
  • d. Bronsmerki í hlýðni. (Gildir fyrir hunda fædda eftir 1. janúar 2004).
  • e. Innfluttur hundur með IPOI próf (Schutzhund, SCHH1) jafngildir lið c og d.
  • f. Smalaeðlispróf fyrir fjárhunda (jafngildir lið c og d).

73. Vinnuhundar (Working/Utility) í tegundahópi 1, 2, 3, 4, 5 6 og vatna- og spanielhundar (Flushing/Water) í tegundahópi 8 (Gildir um hundakyn sem þurfa að skila vinnuprófum skv. Breeds nomenclature lista FCI – stjörnumerktir í Working trials reit, án sviga), þurfa að uppfylla eftirtalin skilyrði til að að hljóta titilinn Alþjóðlegur meistari (C.I.B):

  • a. Tvö alþjóðleg meistarastig (CACIB) í einu eða fleiri löndum, frá tveimur dómurum af mismunandi þjóðerni og frá tveimur FCI aðildarlöndum. Eitt ár og einn dagur verða að líða milli fyrsta og síðasta alþjóðlegs meistarastigs. Dæmi: frá 1. janúar 2004 til 1. janúar 2005.
  • b. Skapgerðarmat
  • c. Bronsmerki í hlýðni
  • d. Sporleitarpróf I, viðurkennt af HRFÍ
  • e. Innfluttur hundur með IPOI próf (Schutzhund, SCHH1) jafngildir lið c og d.

Að öðru leyti gilda sýningareglur HRFÍ.


74. Ákvæði fyrir tegundahóp 7

Hundur í tegundahópi 7 þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að hljóta titilinn íslenskur meistari (ISCH):

  • a. Að hafa hlotið þrjú meistarastig á sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum, þar af eitt stig eftir 24 mánaða aldur.
  • b. Hundur þarf að vera röntgenmyndaður m.t.t. mjaðmaloss (HD) og niðurstöður þurfa að liggja fyrir.
  • c. Hundur þarf að hafa varanlegt auðkenni (örmerki /húðflúr).
  • d. Hundur þarf að standast vinnueiginleikapróf sem hér segir: Að hljóta a.m.k. 2. einkunn í unghundaflokki eða 3. einkunn í opnum flokki í veiðiprófi viðurkenndu af HRFÍ.

Einnig þarf hundur úr tegundahópi 7 að uppfylla eftirtalin skilyrði til að hljóta titilinn Alþjóðlegur meistari (C.I.B.):

  • a. Tvö alþjóðleg meistarastig (CACIB) í einu eða fleiri löndum, frá tveimur dómurum af mismunandi þjóðerni og frá tveimur FCI aðildarlöndum. Eitt ár og einn dagur verða að líða milli fyrsta og síðasta alþjóðlegs meistarastigs. Dæmi: frá 1. janúar 2004 til 1. janúar 2005.
  • b. Hafa lokið veiðiprófi í samræmi við eiginleika viðkomandi hundakyns á veiðiprófi viðurkenndu af HRFÍ.

Að öðru leyti gilda sýningarreglur HRFÍ.

75. Ákvæði fyrir tegundahóp 8

Retrieverhundur þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að til að hljóta titilinn íslenskur meistari (ISCH):

  • a. Að hafa hlotið þrjú meistarastig á sýningum HRFÍ hjá þremur mismunandi dómurum, þar af eitt stig eftir 24 mánaða aldur.
  • b. Retrieverhundur þarf að hafa varanlegt auðkenni (örmerki/húðflúr).
  • c. Retrieverhundur þarf að standast vinnueiginleikapróf sem hér segir:
  • Að hljóta a.m.k. 3. einkunn í opnum flokki á B retriever- veiðiprófi, viðurkenndu af HRFÍ.

Einnig þarf hundur úr tegundahópi 8 að uppfylla eftirtalin skilyrði til að hljóta titilinn Alþjóðlegur meistari (C.I.B):

  • a. Tvö alþjóðleg meistarastig (CACIB) í einu eða fleiri löndum, frá tveimur dómurum af mismunandi þjóðerni og frá tveimur FCI aðildarlöndum. Eitt ár og einn dagur verða að líða milli fyrsta og síðasta alþjóðlegs meistarastigs. Dæmi: frá 1. janúar 2004 til 1. janúar 2005.
  • b. Hafa lokið veiðiprófi viðurkenndu af HRFÍ í samræmi við eiginleika viðkomandi hundakyns.

Að öðru leyti gilda sýningareglur HRFÍ.

Skammstafanir

  • CACIB: Alþjóðlegt meistarastig
  • Res-CACIB: Vara-alþjóðlegt meistarastig
  • FCI: Alþjóðasamtök hundaræktafélaga
  • HD: Mjaðmalos
  • AD: Olnbogalos
  • HRFÍ: Hundaræktarfélag Íslands
  • C.I.B: Alþjóðlegur meistari
  • C.I.E: Alþjóðlegur sýningameistari
  • ISCH: Íslenskur meistari
  • ISSCH: Íslenskur sýningameistari

Útreikningur stiga

1. Stigaútreikningur fyrir stigahæsta hund ársins

Gefin eru stig til fjögurra efstu hunda í hverjum tegundahópi.

Stigagjöf fyrir sætaröðun í tegundahópi fer eftir fjölda skráðra hunda í tegundinni á viðkomandi sýningu.

Stig eru aðeins gefin á opnum ræktunarsýningum félagsins á viðkomandi almanaksári, þar sem allar hundategundir geta tekið þátt.

Stigahæsti hundur ársins er heiðraður á lokasýningu ár hvert.

Besti hundur sýningar, stigafjöldi eftir sætaröðun:

  • BHS-1 12 stig.
  • BHS-2 11 stig.
  • BHS-3 10 stig.
  • BHS-4 9 stig.

Stig fyrir hunda, eftir úrslit í tegundahóp og fá ekki sæti í BHS

Fjöldi skráðra hunda í tegund 1. sæti 2.sæti 3.sæti 4.sæti
1 - 5 4 3 2 1
6 - 10 5 4 3 2
11 - 20 6 5 4 3
21-40 7 6 5 4
41 og fleiri 8 7 6 5

2. Stigaútreikningur fyrir stigahæsta öldung ársins

Stigagjöf fyrir öldung fer eftir fjölda skráðra öldunga í tegundinni á viðkomandi sýningu.

Stig eru aðeins gefin á opnum ræktunarsýningum félagsins á viðkomandi almanaksári, þar sem allar hundategundir geta tekið þátt. Aðeins besti öldungur tegundar (BÖT) með framhaldseinkunn (m.efni eða heiðursverðlaun) getur fengið stig enda keppir hann í úrslitum um besta öldung sýningar (BÖS).

Stigahæsti öldungur ársins er heiðraður á síðustu sýningu ár hvert.

Besti öldungur sýningar, stig eftir sætaröðun:

  • BÖS-1 12 stig
  • BÖS-2 11 stig
  • BÖS-3 10 stig
  • BÖS-4 9 stig

3. Stigaútreikningur fyrir stigahæsta unga sýnanda ársins

Stig eru aðeins gefin á opnum ræktunarsýningum félagsins á viðkomandi almanaksári, þar sem allar hundategundir geta tekið þátt.

Stigahæstu ungu sýnandur ársins í yngri og eldri flokki eru heiðraðir á síðustu sýningu ár hvert.

Stigagjöf fyrir unga sýnendur yngri og eldri flokki:

  • 1. sæti: 40 stig
  • 2. sæti: 30 stig
  • 3. sæti: 20 stig
  • 4. sæti: 10 stig