Fuglahundadeild mynd 12
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7571577

Fróðleikur


Deila
Skemmtilegur, skynsamur en kröfuharður félagi

Fuglahundar eru einstaklega skemmtilegir félagar en þurfa gott atlæti og mikla hreyfingu. Þeir eru blíðir og barngóðir, skynsamir og fljótir að læra og einstaklega ljúfir á heimili, svo lengi sem grundvallar þörfum þeirra sé sinnt, þ.e. mikilli og reglulegri útiveru og hreyfingu. Nauðsynlegt er þeim sem veltir fyrir sér að eignast fuglahund að gera sér grein fyrir því að með fuglahundi er hann að velja sér veiðifélaga til næstu tíu ára hið minnsta og fyrir höndum eru krefjandi verkefni, bæði við þjálfun og útiveru. Ef fuglahundi er vel sinnt er leitun að betri og skemmtilegri félaga, en óhamingjusamur hundur er engum til yndisauka.

Fuglahundar, t.a.m. setar og bendar, eru yfirleitt ákveðnir í skapi og kröfuharðir á eiganda sinn, a.m.k. þegar kemur að gönguferðum og útiveru. Þeir yfirleitt fremur ómannblendnir, halda sig oft fjarri ókunnugum og eru lítt gefnir fyrir kjass, klapp og stjórnsemi.

Veiðar með fuglahundi

Þegar veitt er með fuglahundi, haga menn veiðum með tilliti til hundsins. Menn velja sér veiðislóð þar sem vel sést yfir og menn unnt er að fylgjast með hundinum við rjúpnaleit. Veiðimaðurinn gengur rólega yfir veiðislóðina en lætur hundinn um að leita rjúpna, finna þær, standa og benda á þær. Menn skjóta hvorki sitjandi rjúpu ef menn eru með fuglahundi á veiðum, né rjúpu sem hundurinn hefur ekki fundið.

Dagleg hreyfing nauðsynleg

Fuglahundur sem ætlaður er til veiða þarf daglega hreyfingu og honum er nauðsynlegt að fara í lengri túra, þ.e. í allt að þrjá klukkustundir einu sinni eða tvisvar í viku. Fyrir rjúpnaveiðitímann þarf hann að frá skarpa upprifjun í veiðivinnu og ögun, auk þess sem hann þarf að fá hlaupaþjálfun til að byggja upp líkamsþol fyrir langar og strangar rjúpnaferðir. Á rjúpnaveiðum má gera ráð fyrir að gengnir séu 3 - 4 km á klukkustund, en hundurinn fer margfalt lengri leið á sama tíma. Fuglahundur þarf því frekar en eigandinn að fá góða þrek- og hlaupaþjálfun fyrir veiðitímann.

Krefjandi og spennandi verkefni

Þjálfun fuglahunda til veiða, er krefjandi en mjög spennandi viðfangsefni. Þjálfunin krefst ekki langra gönguferða, heldur skiptir mestu að þjálfunin sé markviss, með jákvæðri hvetjandi ögun og leiðbeiningum. Alla grunnþjálfunina á að vinna á heimaslóð, í garðinum heima eða á opnu útivistarsvæði, þar sem maður og hundur fá frið til að einbeita sér að þjálfun.

Nánari upplýsingar um fuglahunda, eðli þeirra og þjálfun, er að finna hér á síðunni.