Fuglahundadeild mynd 3
Leita á vefsíðu

Póstlisti
Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7311101

Heilbrigði og fóðrun


Deila
Heilbrigði og fóðrun

PER HARALD NYMARK
þýðing Erlendur Jónsson


Fóðrun veiðihunda
Vinnu- og veiðihundar, þurfa orkuríkt fóður vegna mikillar hreyfingar
Umhirða og fóðrun veiðihunda
Hirðing á klóm
Hvernig má forðast að þófar hundanna spryngi ?
Hvernig má koma í veg fyrir sár á þófum ? 

Fóðrun veiðihunda

Rétt mataræði hefur lengi verið talið mikilvægt fyrir þátttakendur í keppnisíþróttum. Reynslan sýnir, að með réttu mataræði má auka árangur. Meðal hundeigenda hafa næringarefni gjarnan verið mikið rædd og meðal veiðihundaeigenda er fóður og fóðrun ofarlega á baugi. Þrátt fyrir mikla umræðu, eru fjölmargir hundaeigendur sem hafa mjög takmarkaða þekkingu á því hvernig fóðra skal hunda, sem ýmist eru undir miklu álagi eða við hvíldaraðstæður.

Hundurinn er rándýr, sem hefur meltingarveg aðlagaðan að því að melta bráð eða hræ. Tennur hunda eru lítt til þess fallnar að fínmala fæðuna. Tennur þeirra eru þeim mun betur fallnar til að klippa fæðuna í smáa bita. Fæða, sem hundar fá, þarf því að vera auðmelt. Fyrir hunda er fæða af dýrauppruna jafnan auðmeltanlegri en jurtafæða. Villtir hundar byrja gjarna á að éta auðmeltustu hluta veiðibráðar sinnar, þ.e. maga- og þarmainnihald. Síðan ráðast þeir á vöðva bráðarinnar og ef hart er í ári þá naga þeir bein. Meltingarvergur hunda er stuttur og fæðan er því í skamman tíma í þeim hluta meltingarvegarins sem næringarupptaka fer fram í. Hundafóður þarf því að vera auðmelt. Þegar hundar eru mikið hreyfðir, í uppvexti sem og á meðgöngu þegar tíkur eru með hvolpa á spena, þarf að fóðra þá með orkuríkri fæðu.

Skilgreiningar:

Heildarorka (Bruttoenergi): Yfirleitt er uppgefið á fóðursekkjum heildarorkuinnihald í fóðri. Heildaroka í fóðri (Kcal / 100 gr. eða KJ / 100 gr.) er mjög villandi mælikvarði á raunverulega orku sem hundurinn nær úr fóðrinu. Flestar gerðir hundafóðurs innihalda mjög svipað heildarorku, þrátt fyrir að mjög mismunandi sé hve auðmelt fóðrið er.

Meltanleg orka (Fordöyelig energi): Þessi mælieining gefur til kynna hve mikla orku hundurinn getur tekið upp um þarma, úr hverju kg. af fóðri sem hann étur. Þessi mælikvarði er mjög góður þegar metið er næringargildi fóðursins fyrir hundinn, því tekið er tillit til meltingarstarfsemi hans og fóðursamsetningarinnar.

Nýtanleg orka (Omsettelig energi): Mælikvarði á orku sem tekin er upp í líkamann í gegnum meltingarveg og tekið er tillit til orkutaps sem verður m.a. með þvagi. Nýtanleg orka er mælikvarði á þá orku sem hundurinn hefur til ráðstöfunar til líkamsstarfsemi sinnar.
Viðhaldsþörf (Vedlikeholdelsebehovet): Sú orku- og næringarefnaþörf sem hundurinn þarf til að fullnægja þörfum sínum við venjulegar aðstæður.

Næringarefni:

Prótein: Næringargildi próteins í hundafóðri er breytilegt, allt eftir samsetningu þess og uppruna. Vegna þess mikla breytileika í næringargildi próteinsins og nýtanleika, væri í sjálfu sér eðlilegt að þessir þættir væru gefir upp á fóðursekkjum. Gæði fóðurs, ræðast fyrst og fremst af magni af meltanlegu próteini og meltanlegri orku sem í því er. Prótein í hundafóðri hefur gjarnan áhrif á hve lystugt það er. Í próteini eru byggingareiningar vöðva og líkamsvefja. Vöðvar í hundsskrokknum þurfa orku til að vinna, en þá orku fá þeir ekki úr próteini. Því er ekki ástæða til að auka prótein í fóðri hunda sem eru mikið hreyfðir og undir álagi . Orkugildi próteina, er um 4 Kcal per gr.

Fita: Fita í fóðri er samsett af mörgum gerðum fitusýra. Ómettaðar fitusýrur eru hundum lífsnauðsynlegar. Skortur á fjölómettuðum fitusýrum lýsir sér oft í möttum feldi og kláða í húð, sárum og þykknun húðarinnar. Ýmsar jurtaolíur (t.d ólívuolíur og sólblómaolíur) og fisklýsi eru mjög góð uppspretta ómettaðra fitusýra. Fita er aðalorkugjafi í hundafóðri, enda er orkugildi fitu um 9 Kcal per gr. eða ríflega tvöfalt hærra en orkugildi próteina.

Vítamín: Fituleysanleg vítamín, A, D, E og K fá hundar með fitu í fóðri. Mikilvægt er að passa upp á að nóg sé af þessum vítamínum í heimalöguðu fóðri. Vatnsleysanlegu vítamínin, safnast ekki fyrir í líkama hunda, heldur eru skilin út í nýrum. Líffæri hunda framleiða jafnan vítamín C í nægjanlegu magni við eðlilegar aðstæður.

Trefjar: Um það bil 1 – 2% af þurrefni fóðursins þarf að vera trefjar. Trefjarnar hafa áhrif á flutningshraða fæðunnar gegnum meltingarveginn, einkum í skeifugörninni. Þegar trefjainnihald í hundafóðri fer yfir 5%, minnkar verulega meltanleiki fóðursins og skítmagnið eykst.

Steinefni: Sjaldan verður vart truflana á steinefnajafnavægi í hundum, hvað varðar önnur efni en kalsíum og fosfór. Hlutfall kalsíum á móti fosfór má gjarna vera 1,3 – 2 : 1, en forðast skal að þetta hlutfall fari undir 1.1 : 1. Beinlaust kjöt, úrgangur frá sláturhúsum, korn og heimilisafgangar hafa mjög oft lágt innihald af kalsíum. Í heimalagað fóður er mjög oft bætt kalktöflum eða beinamjöli.

Vatn: Með notkun á þurrfóðri er þörf á tryggja hundum greiðan aðgang að vatni. Alla jafna drekka hundarnir 2 – 4 klst. eftir að þeir hafa étið. Ef hundar hafa ekki nægan aðgang að vatni verður þvag þeirra afskaplega sterkt og hætt er við myndun nýrnasteina.

Til athugunar vegna fóðrunar: Þungi hunda skal vera nánast stöðugur. Það að hundar horist, getur átt sér margar skýringar, en feitir hundar eru jafnan offóðraðir.

Skítur: Hundar eiga ekki að vera í vandræðum með að skíta. Ef skíturinn er harður bendir það oft til hás öskuinnihalds í fóðri eða mikils magns trefja. Þunnur skítur stafar oft af meltingartruflunum í skeifugörn, t.d. vegna matarleifa eða hrás sláturúrgangs í fóðri. Næringarsnauðu og illmeltanlegu fóðri fylgir oft mikill skítur, sem iðulega stafar af háu öskuinnihaldi, miklum trefjum eða illmeltanlegu próteini í fóðrinu.

Vinnu- og veiðihundar, þurfa orkuríkt fóður vegna mikillar hreyfingar. Hátt orkuinnihald fóðurs fæst með fitu- eða kolvetnaríku fóðri.

Prótein er óheppilegur orkugjafi, því niðurbrotsefni þess eru mjög krefjandi fyrir stafsemi lifrar og nýrna. Fóðrun með mjög próteinríku fóðri hefur því oft í för með sér minnkaða afkastagetu. Kolvetni og fita eru hreinni og kröftugri orkugjafar en prótein.

Veðhlaupahundar sem þurfa að ná hámarkskrafti á stuttum tíma, þurfa að geta nýtt aðgengileg kolvetni í líkamanum (glykogen). Þriðjungur af fóðri þeirra er gjarna auðmelt kolvetni. Veiðihundar, sem þurfa að halda miklum krafti og einbeitingu í langan tíma, fá hinsvegar gjarna 70 – 80% orkunnar úr fríum fitusýrum, þ.e. niðurbrotsafleiðum úr fitum. Almennt má gera ráð fyrir, að því lengur sem álag er á hunda, þeim mun hærra hlutfall af orkuþörf hundanna þarf að koma úr fitu. Orkugildi fitu er nærri tvöfalt orkugildi kolvetna, en einmitt þess vegna er veiðihundum í álagi gefið fituríkt fóður, svo fóðurmagnið sem þeim er gefið verði ekki alltof mikið. Fita er auðmelt og vatnstap í skít verður minna, þegar gefið er fituríkt fóður en þegar fóður er kolvetnaríkt. Jafnan er þó ástæða til að 10 – 20% af fóðri sé léttmelt kolvetni, það minnkar líkur á undir álagi verði próteinniðurbrot til orkumyndunar í líkama hundsins.

Hundar sem erfiða þurfa mikið vatn. Af orkunni sem þeir eyða við erfiðið, nýtist um 25% í vöðvum, en um 75% verða að varma sem þeir losa sig við um öndunarveg sem vatnsgufu. Þeir þurfa því að drekka til að halda vatnsjafnvægi í líkamanum, ella dregur mjög skarpt úr getu þeirra og árvekni.

Umhirða og fóðrun veiðihunda

Hirðing á klóm

Klærnar þarf að klippa reglulega svo þær rifni ekki eða klofni. Í klofna kló hleypur oft ígerð, sem jafna veldur sársauka og helti, sem gerir hundana óbrúklega til veiða.

Klær hunda eru sama eðlis og neglur á okkur mönnum. Á hundum slitna klær mismunandi, allt eftir hreyfingu þeirra og byggingu loppunnar. Hundur sem er með vel krepptar loppur slítur klónum vel og eðlilega, ef hann hreyfir sig á misjöfnu landi. Þarf þá ekki að klippa klær hans, nema endrum og sinnum. Hundur sem er með flatar loppur og gleiðar tær, slítur hinsvegar klónum lítið og þarf hann því góða umhirðu og klippingu, til að koma í veg fyrir klofnun klónna og brot þeirra.

Nokkru auðveldara er að klippa ljósar klær hunda en dökkar, því í ljósum klóm eru lifandi kvikan sýnileg. Í dökkum klóm er kvikan ekki sýnileg og þarf því að klippa þær varlega og gjarna í nokkrum smábútum, svo ekki fari í kvikuna. Hundum finnst afar óþægilegt ef klippt er í kvikuna. Gjarnan er málum þannig háttað, að því oftar sem klær eru klipptar því styttra fram í klóna nær kvikan og því auðveldari verður umhirðan.

Klipptu klær oft og notaðu klóaklippur sem bíta vel.

Umhirða um þófa og loppur

Veiðihundar fara hratt um og víða, á misjöfnu landi. Hætt er við að þófar þeirra slitni eða jafnvel rifni, sem gjarnan veldur því að hundarnir verða sárfættir og heltast.

Við álag springa þófarnir gjarnan á brúnum eða þvert á þófana. Þófarnir eru með þykkri og oft harðri húð, sem veldur því að við álag hreyfast þykkir sprungubarmarnir og sár haldast því oft lengi opin. Sárin og sprungurnar gróa oft hraðar, ef barmar þess eru slípaðir niður með naglaþjöl, eða mýkjandi og græðandi smyrsli eru borin í sárin, oft á dag. Samhliða meðhöndluninni, er ástæða til að hreyfa hundinn eins lítið og kostur er.

Í verslunum fást mjög góð smyrsl fyrir þófa. Smyrsl sem hafa þannig lykt og bragð, að hundarnir forðast að sleikja þau. Þessi smyrsl hafa einnig græðandi áhrif, en enda ekki í maga hundanna, eins og gjarna gerist ef notuð eru smyrsl fyrir okkur mannfólkið.

Hvernig má forðast að þófar hundanna springi?

Skoðaðu þófa hundsins reglulega, einkum ef þú veiðir þar sem er skarir eru, grófur snjór, frosnir melar eða vikurflákar. Þófana má gjarna smyrja með tjörusmyrsli. Ef þófar eru mjög harðir og smásprungnir, getur verið ástæða til að pússa þá með naglaþjöl og smyrja vel á eftir. Rétt er að benda á, að þurrkur og sprungur í þófum, geta á stundum stafað af vítamínskorti. A og D vítamíngjöf getur því verið athugandi, ef viðvarandi vandi er með þófa á hundunum.

Sár frá ísklumpum

Hjá langhærðum og strýhærðum hundum safnast á stundum ís á milli tánna og á milli þófanna. Helst verður þessa vart í nýföllnum snjó, eða lausasnjó og kulda. Ísmolar á milli tánna og þófanna nuddast oft illa, jafnvel þannig að sár myndast eða sprungur í þófum. Blæðingar sem þessu fylgja auka svo á ísmyndunina. Þegar svona háttar til er mikilvægt að reyna að forðast að hundurinn rífi ísmola burtu með kjaftinum, því munnvatnið frýs og eykur enn á ísmyndunina. Reyndu að losa ísinn burtu, en hafðu vettlinga á höndunum, því þannig bráðnar minna af ísmolunum en ella. Bráðinn ís frá höndum þínum, eykur enn ísmyndun. Best er að bera smyrsl á þófana og á milli tánna til að draga úr ísmynduninni.

Hvernig má forðast ísmyndun á loppum hunda?

Grófklipptu hárin milli tánna á hundinum. Gott er að nota íbogin skæri, þegar klippt er milli þófanna, tánna og jaðarinn umhverfis loppurnar. Gjarnan má svo klippa hárin á milli þófanna og tánna, eins stutt og kostur er með fínum skærum. Einnig er ágætt að not skeggsnyrti við fínklippinguna. Ástæða er til að smyrja loppurnar á hundunum áður en haldið er til veiða eða til æfinga, þegar ætla má að ísmyndun geti orðið á loppum hundanna.


Ítarefni: Grein Jakobínu Sigvaldadóttur dýralæknis um mjaðmalos í hundum. 

Setja link á þetta: http://www.hvuttar.net/?h=6864&g=155