Fuglahundadeild mynd 12
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7478523

Hentar fuglahundur þér?


Deila
Hentar fuglahundur þér?

Samantekt Erlendur Jónsson


Hentar þér að eiga fuglahunda sem veiðifélaga?

Eiginleikar hvolps og eiganda


Áður en þú eignast hvolp, þarft þú að vita að til þess að hann nýtist við veiðar þarft þú að vinna vel og samvikusamlega að þjálfun hans. Þú skalt ekki búast við að fjöldi rjúpna sem þú veiðir aukist, en hver rjúpa sem þið veiðið saman gerir meiri kröfur til þín sem veiðimanns.

Fuglahundar, setar og bendar, eru gjarna mjög ákveðnir í skapi og kröfuharðir á eiganda sinn, a.m.k. þegar kemur að gönguferðum og útiveru. Heima fyrir eru þeir jafnan ljúfir og ákaflega blíðlyndir. Þeir halda sig oft fjarri ókunnugum og eru lítt gefnir fyrir kjass, klapp og stjórnsemi.

Þegar þú veiðir með fuglahundi, hagarðu veiðunum í samræmi við það. Þú velur þér veiðislóð þar sem þú sérð vel yfir og getur fylgst með hundinum við rjúpnaleit. Þú ferð sjálfur rólega yfir veiðislóðina, en lætur hundinn um að leita rjúpna, finna þær, standa og benda á þær. Þú skýtur aldrei sitjandi rjúpu þegar þú ert með fuglahunda á veiðum og þú skýtur heldur aldrei á rjúpu sem þú sérð, en hundurinn hefur ekki fundið.

Fuglahundur sem ætlaður er til veiða þarf daglega hreyfingu og honum er nauðsynlegt að fara í lengri túra, þ.e. í allt að þrjá klukkustundir einu sinni eða tvisvar í viku. Fyrir rjúpnaveiðitímann þarf hann að frá skarpa upprifjun í veiðivinnu og ögun, auk þess sem hann þarf að fá hlaupaþjálfun til að byggja upp líkamsþol fyrir langar og strangar rjúpnaferðir. Á rjúpnaveiðum máttu áætla að þú gangir 3 - 4 km á klukkustund, en hundurinn fer 5 - 10 sinnum lengri leið á sama tíma. Fuglahundur þarf því enn frekar en þú, að fá góða þrek- og hlaupaþjálfun fyrir veiðitímann.

Þjálfun fuglahunda til veiða, er krefjandi en mjög spennandi viðfangsefni. Þjálfunin krefst ekki langra gönguferða, heldur skiptir mestu að þjálfunin sé markviss, með jákvæðri hvetjandi ögun og leiðbeiningum. Alla grunnþjálfunina á að vinna á heimaslóð, í garðinum þínum eða á opnu útivistarsvæði, þar sem þið fáið frið til að einbeita ykkur að þjálfuninni. Þegar kemur að lokaþjálfuninni, þ.e. að tryggja festu þegar hundurinn stendur á rjúpu, rekur hana upp og sest þegar hún flýgur, er nauðsynlegt að æfa hundinn þar sem töluvert er af rjúpum.

Á Norðurlöndunum er lögð rík áhersla á að fuglahundar sæki bráð á landi og í vatni, en geti auk þess rakið slóð særðrar bráðar. Hérlendis hafa fáir aðstæður til að eiga marga hunda og því er sjálfsagt að kenna fuglahundunum að sækja bráð.
Eiginleikar hvolps og eiganda

Upplag hvolpa ræður miklu um árangur af veiðiþjálfun. Hinu má þó ekki gleyma, að þið eruð tveir sem þjálfið veiðarnar saman, þú og fuglahundurinn þinn. Ef annar kann og getur, en hinn ekki, þá er nokkuð útséð með árangurinn. Hverjir svo sem eiginleikar ykkar eru, verðið þið báðir að leggja ykkur fram. Þú verður að kynna þér þjálfun fuglahunda, nota heilbrigða skynsemi og einbeita sér að þjálfuninni þegar hún fer fram. Þú verður að haga þjálfuninni í samræmi við getu og framfarir hundsins. Það koma örugglega tímabil við þjálfunina þegar allt fer í handaskol, en á öðrum tímum er eins víst að allt gengur upp og hundurinn lærir hratt og vel. Þú verður stöðugt að endurmeta þjálfunina, hvað þú ert að gera og af hverju. Hvort einn þáttur sé svo vel lærður að hægt sé að bæta við nýjum.

Þú skalt einnig muna, að það skiptir einungis þig sjálfan máli hver árangur verður af þjálfuninni. Með vali og kaupum á hvolpi, ert þú að leggja grunninn að árangri við þjálfun og veiðar í ókomin ár. Þú ert ekki að eyða peningum. Nei. Þú ert að velja þér veiðifélaga;

• félaga sem þú ætlar að vera mikið með við þjálfun,
• félaga sem þú vilt skilja og skynja hvernig veiðir,
• félaga sem hefur ánægju af að vera með þér og veiða með þér,
• veiðifélaga sem er tryggur og trúr hvort heldur gengur vel eða illa.

Með hvolpi af góðum uppruna eignast þú ekki sjálfkrafa veiðihund. Þegar þú eignast hvolp, sem hefur til að bera alla þá eiginleika sem þarf til að úr verði afbragðs fuglahundur, þá skaltu ekki gleyma því að þjálfunin og þín vinna ræður öllu um það hvernig til tekst við að hagnýta eiginleika hvolpsins. Afleiðing rangrar þjálfunar, skapvonsku og óþolinmæði verður ævinlega ein og sú sama, þ.e. ráðvilltur, óöruggur og aumkunarverður fuglahundur.

Að veiða rjúpur og að æfa fuglaveiði með standandi fuglahundum eru skemmtileg og spennandi sportveiði, sem gerir kröfu til hunds og manns. Því er ekki úr vegi að fara örfáum orðum um rjúpuna og hvers ber að gæta við þjálfun fuglahunda á rjúpnaslóð.